Innlent

„Segir allt sem segja þarf um viðhorfið hér á Búgarði dýranna – Animal farminu“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Búast má við að umræður muni standa yfir fram á nótt.
Búast má við að umræður muni standa yfir fram á nótt. vísir/gva
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, líkti í kvöld ríkisstjórninni við Búgarð dýranna í umræðum um afturvirkar kjarabætur aldraðra og öryrkja. Hart er deilt á Alþingi þessa stundina um fjárlagafrumvarp næsta árs, og virðast þingmenn ekki spara stóru orðin.

„Fyrir síðustu kosningar fékk hver einasti eldri borgari á Íslandi bréf undirritað af Bjarna Benediktssyni, núverandi hæstvirts fjármálaráðherra, þar sem því var heitið að það yrði fyrsta verk Sjálfstæðisflokksins að leiðrétta kjör aldraðra. Nú fá viðtakendur þessa sama bréfs að sjá hvaða hugur fylgdi máli,“ sagði hún. Nú horfi þessir sömu aðilar upp á stjórnarþingmenn segja nei við því að þeir fái ekki sömu hækkanir og aðrir.

Sum dýrin jafnari en önnur

„Segja nei við þeirri sjálfsögðu sanngirniskröfu sem við ættum ekki að þurfa að leggja nótt við dag til að rökræða hér. Þetta segir allt sem segja þarf um viðhorfið hér á búgarði dýranna – Animal farminu, þar sem  öll dýrin eiga að vera jöfn, en sum bara jafnari en önnur,“ sagði Ólína og um leið heyrðist kallað úr salnum: „Skammastu þín“.

Sjá einnig: Segir þingmann undir áhrifum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði umræðuna komna í ógöngur. Hann sagði það sæta furðu að þingmenn tali um aðför að öryrkjum og eldri borgurum, þegar verið sé að auka kaupmátt bóta meira en áður en hafi verið gert.

„Hér koma menn og segja: „Það þýðir ekkert að tala um prósentur, menn eiga bara að tala um krónur“. Jæja, hvernig er krónusamanburðurinn við það sem síðasta ríkisstjórn bauð upp á í þessum efnum. Svo kemur hér upp sérlegur talsmaður síðustu ríkisstjórnar, háttvirtur þingmaður Pírata, og kallar háttvirta þingmenn hálfvita fyrir að skilja það ekki að síðasta ríkisstjórn hafði rekið ríkissjóð með svo svakalegum halla að hún hafi ekki átt efni á að koma til móts þá sem minna mega sín. Hún hafi eitt svo svakalegum efnum fram í aðra hluti að hún hafi ekki átt efni á að koma til móts við þá sem minna mega sín. Háttv. þingmaður leyfir sér að halda því fram að aðrir þingmenn séu hálfvitar að skilja þetta ekki,“  sagði Sigmundur.

 

„Þetta er til marks um það á hvaða stað þessi umræða  er þegar verið er að ráðast i meiri aukningu, meiri hækkun en menn hafa séð á undanförnum árum og það er verið að leiðrétta aftur í tímann, þó það sé greitt í framhaldinu, þó það sé greitt eftir áramót.“


Tengdar fréttir

Segir þingmann í salnum undir áhrifum

„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×