Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í Hæstarétti.
Í Hæstarétti. vísir/stefán
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm yfir tæplega þrítugum karlmanni sem hann hlaut í héraðsdómi í desember á síðasta ári fyrir kynferðislega áreitni og ósiðlegt athæfi. Maðurinn hafði farið óboðinn inn í svefnherbergi þar sem vinkona hans lá sofandi, lagst við hlið hennar og strokið henni meðan hann fróaði sér. Refsing hans var ákveðin sex mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt 9. mars 2013 en þá kom brotaþoli heim af djamminu ásamt vinkonu sinni. Vinkona hennar bauð hinum sakfellda að koma þangað til þeirra en hann þekkti þær báðar. Öll voru þau undir áhrifum áfengis. Þær fóru saman inn í herbergi en manninum var boðið að sofa á sófa í íbúðinni.

Um nóttina vaknaði brotaþoli við að maðurinn lá á milli þeirra vinkvenna. Strauk hann henni um rass, læri og þuklaði á henni á meðan hann fróaði sér. Þá stundi hann til skiptis nöfn vinkvennanna og unnustu sinnar.

„Ég reyni meira og meira og reyni að fá hann til að hætta og hann hættir ekkert fyrr en hún vaknar og hún er ekkert að gera sér grein fyrir hvað er að gerast strax, hún bara horfir á okkur ... en hún sér að ég er svona skrýtin í andlitinu og byrja að öskra á hana og segi við hana að hann sé bara að káfa á mér og eitthvað og þá kýlir eða svona gefur hún honum olnbogaskot í bringuna og togar í hárið á honum og svona tekur hann út úr rúminu og hendir honum fram.“ Svona skýrði brotaþoli frá málinu við skýrslutöku.

Maðurinn neitaði sök og sagði að hann hefði ekki hugmynd hví hann væri sakaður um brotið. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti, segir að tilkynnt hafi verið um brotið samdægur og lítið ósamræmi hefði verið í framburði vinkvennanna. Var það mat hans að ekkert hefði komið fram í málinu sem rýrt hefði vitnisburð þeirra.

Auk refsingarinnar var maðurinn dæmdur til að greiða brotaþola 250.000 krónur auk alls sakarkostnaðar en hann nemur rúmlega milljón krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×