Innlent

Lögreglan á Akureyri varar við hættulegum hrossum

Sveinn Arnarsson skrifar
vísir/stefán

Girðingar í nágrenni Akureyrar eru margar hverjar á kafi og hross eiga greiða leið upp á þjóðvegi. Stórhættulegt ástand, segir yfirlögregluþjónn. Formaður hestamannafélagsins Léttis á Akureyri tekur undir varnaðarorð lögreglunnar.

Landbúnaður Lögreglan á Akureyri hefur síðustu daga haft í nógu að snúast í hrossasmölun norðan Akureyrar. Eftir snjóatíð undanfarið hafa margar girðingar farið í kaf. Einnig hafa jarðbönn orðið í mörgum túnum og hross því farið af stað í leit að æti.

„Já, það hafa komið tilvik þar sem við höfum verið að smala hrossum af vegum til að gæta öryggis bæði dýra og vegfarenda,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri.

Þann 9. desember sem og tveimur dögum síðar þurftu lögreglumenn á Akureyri að sinna útköllum þar sem hross voru farin úr hólfum sínum. Mikið hafði snjóað þá daga og girðingar fóru á kaf. Þann 9. þurftu lögreglumenn að koma hrossum af þjóðvegi 1 rétt norðan Akureyrar í svartamyrkri. Tveimur dögum seinna þurftu svo lögreglumenn að smala hrossum innan bæjarmarka Akureyrar. Náðist að króa hrossin af á leikvelli barna ofarlega í bænum þar sem eigendur vitjuðu hrossa sinna.

„Það er stórhætta þegar svona stórar skepnur fara úr girðingum og upp á vegi,“ segir Daníel yfirlögregluþjónn. „Viljum við því biðla til bænda og eigenda búfjár á þessum slóðum að huga að girðingum sínum. Ef ekki er hægt að halda hólfum girtum er nauðsynlegt að taka hesta á hús svo ekki skapist stórhætta.“

Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Léttis á Akureyri, tekur undir orð yfirlögregluþjónsins á Akureyri og þakkar fyrir að ekki hafi orðið slys. 

„Við höfum beint því til eigenda hrossa á svæðinu að huga að útigangi. Girðingar eru komnar á kaf og enga beit er að finna í mörgum hólfum. Því þarf að gefa hrossum úti og huga vel að girðingum. Við höfum einnig fengið fjölda ábendinga um laus hross á svæðinu. Það er mjög mikilvægt í því árferði sem nú er að gæta að því að hross fari ekki af stað. Um leið og hross fá ekki beit í hólfum sínum fara þau á flæking og því er voðinn vís,“ segir Sigfús Ólafur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.