Innlent

Töluverð hætta af völdum grýlukerta

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Mikið hefur verið hringt inn til lögreglu í dag og kvartað undan hættu af völdum grýlukerta. Lögreglan beinir því þeim tilmælum til húseigenda að hreinsa grýlukerti af húsum sínum þannig að þau detti ekki og valdi skaða á mönnum og/eða dýrum.

Þá er fólk jafnframt varað við snjóhengjum fram af húsþökum sem geta hrunið niður þegar minnst varir, en þær geta orðið talsvert þungar og því varasamar.

Hættan er óvenju mikil við þessar aðstæður sem nú eru og að ýmsu að hyggja, að sögn Ólafs Inga Grettissonar hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. „Það er á ábyrgð húseigenda að passa upp á að tryggja öryggi vegfarenda í kringum eignir sínar. Grýlukertin eru mikil núna og það þarf að passa að hreinsa þau í burtu,“ segir Ólafur. Hafi fólk ekki tök á að hreinsa þau burtu sjálf sé best að hafa samband við þar til bæra aðila.

„Hér áður fyrr vorum við hjá slökkviliðinu aðeins að aðstoða við þetta en það er liðin tíð. Þannig að þeir sem ekki ná þessu ekki með prikum eða einhverjum stikum þá verða menn bara að hafa samband við verktaka. Það eru aðilar með körfubíla og slíkt sem geta komið og aðstoðað.“

Þá hvetur hann fólk til að fylgjast vel með. „Fólk ætti að líta aðens upp fyrir sig á gangi á gangstéttum. Ef það eru stór og mikil grýlukerti fyrir ofan þá ætti það ekki að vera mikið undir þeim heldur frekar fara á gangstéttina hinum megin. Það væri svo sem ekkert verra að banka á hurðina hjá húseigendum og láta vita hvað er í gangi,“ segir Ólafur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.