Innlent

Hárrétt viðbrögð starfsmanna þegar baneitruð saltsýra lak úr tanki

Heimir Már Pétursson skrifar
Hárrétt viðbrögð starfsmanna Olís komu í veg fyrir slys þegar baneitruð saltsýra lak úr tanki á athafnasvæði fyrirtækisins við Héðinsgötu í Reykjavík í dag. Töluverðan tíma tók að hreinsa efnið upp.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafði mikinn viðbúnað við Héðinsgötu enda ekkert grín þegar saltsýra lekur út.

„Þetta er mjög hættulegt efni í innöndun. Þetta er sterk sýra, 36 prósent um það bil,“ sagði  Guðmundur Halldórsson varðstjóri sem stjórnaði aðgerðum á vettvangi.

Bílstjóri frá Eimskipum var nýkominn með gáminn að lagerhúsnæði Olís við Héðinsgötu þegar lekinn uppgötvaðist.

„Sennilega hefur verið byrjað að leka eitthvað áður, við vitum það ekki. Við erum að reyna að grennslast fyrir um það núna. Bílstjórinn kvartaði strax og gámurinn kom hingað um að það læki eitthvað. Hann fann til í öndunarfærum og þess vegna erum við að reyna að finna hann núna,“ sagði Guðmundur.

Bílstjórinn kenndi sér hins vegar ekki alvarlegs meins en fór á sjúkrahús til skoðunar í öryggisskyni. Tveir starfsmenn Olís sem opnuðu síðan gáminn brugðust hárrétt við aðstæðum.

„Þeir voru með öndunargrímur og komnir í galla til að vera við öllu búnir. Mjög flott hjá þeim, mjög flott,“ segir Guðmundur.

Þúsund lítrar af saltsýru voru í tanknum sem lak í gámnum

„Það var tæmt úr honum allt sem hægt var að tæma. Svo tókum við kerið út og settum það ofan á opið ker svo hægt væri að tæma úr því. Það er búið núna og við erum að reyna að núllstilla efnið á svæðinu til að gera það óskaðlegt,“ sagði Guðmundur.

Það hreinsunarstarf tók nokkurn mannafla í eiturefnabúningum nokkrar klukkustundir. En Guðmundur segir saltsýru bæði skaðlega við innöndun og snertingu og því mikilvægt að sýran færi ekki óþynnt í jarðveginn og niðurföll.

„Þetta hefur náttúrlega líka áhrif á lífríkið þar sem það kemur út í sjó á meðan ekki er búið að núlla það niður,“ sagði Guðmundur Halldórsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×