Innlent

Höfðu ekki heimild til að birta nafn í úrskurði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Nafn sumarstarfsmanns í Byko var fjarlægt úr ákvörðun Samkeppniseftirlits vegna samkeppnislagabrota fyrirtækisins.
Nafn sumarstarfsmanns í Byko var fjarlægt úr ákvörðun Samkeppniseftirlits vegna samkeppnislagabrota fyrirtækisins. vísir/ernir
Til skoðunar er hjá Samkeppniseftirlitinu hvort fjarlægja þurfi nöfn úr birtum ákvörðunum.

Í úrskurði Persónuverndar sem birtur var í síðustu viku var Samkeppniseftirlitinu uppálagt að fjarlægja nafn fyrrverandi starfsmanns Byko úr ákvörðun um brot fyrirtækisins á samkeppnislögum.

Starfsmaðurinn var sumarstarfsmaður í þjónustuveri samhliða námi á meðan brotin stóðu yfir. Hann lagði fyrir sig lögfræðistörf og sætti sig ekki við að nafn hans dúkkaði upp í tengslum við samkeppnislagabrot í leitarvélum á netinu. Birting nafnsins hefði áhrif á mannorð hans og möguleika til atvinnu. Það kom fyrir um þrjátíu sinnum í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Er Samkeppniseftirlitið brást ekki við beiðnum mannsins um að fjarlægja nafnið kvartaði hann til Persónuverndar. Eftir úrskurð stofnunarinnar í byrjun nóvember fjarlægði Samkeppniseftirlitið nafnið úr ávörðuninni.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Í úrskurði Persónuverndar segir að almennt verði að standa lagaheimild til vinnslu persónuupplýsinga sem fram fari á vegum stjórnvalda.

„Af ofangreindri umfjöllun verður ráðið að slík lagaheimild sé ekki til staðar og því telur Persónuvernd að kveða þyrfti á um slíka heimild til handa Samkeppniseftirlitinu í lögum, í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, sé talin þörf á að birta nöfn starfsmanna í tilvikum sem þessum.“

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Byko standa enn nöfn starfsmanna í svipaðri stöðu og maðurinn sem leitaði til Persónuverndar. Gera má ráð fyrir að sama eigi við um nöfn starfsmanna í öðrum málum sem eftirlitið hefur fjallað um. Sá munur er á að enginn þeirra hefur kvartað yfir birtingunni eða talið hana íþyngjandi svo vitað sé.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir úrskurð Per­sónuverndar til skoðunar.

„Þar á meðal mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til þess hvort rétt sé að afmá fleiri nöfn einstaklinga úr ákvörðuninni,“ segir hann. Um leið sé skoðað hvort skýra þurfi verklag við birtingu ákvarðana. „Úrskurðurinn gefur ekki afdráttarlaust svar við þessu.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×