Innlent

Unglingur fjarlægður af einkareknu vistheimili með sérstakri neyðarráðstöfun

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. skrifar
Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar greip nýlega til neyðarráðstöfunar í lögum til að fjarlægja unglingsstúlku af heimilinu Vinakoti, þar sem hún hefur verið vistuð, vegna vegna vanda sem rekja má til ódæmigerðrar einhverfu, ADH, þunglyndis og kvíða. Fyrrum lögmaður barnsins segir nefndina misbeita lögum. Málið sé stórfurðulegt og ekkert bendi til þess að barninu hafa verið hætta búin í Vinakoti.

Fékk ekki að kalla til lögmann

Barnaverndarnefnd hefur viljað að stúlkan færi úr Vinakoti í fóstur frá því snemma í vor og því hefur verið mikil óvissa um framtíð hennar þótt henni hafi liðið vel í Vinakoti.

Vinakot er einkafyrirtæki og sveitarfélög greiða kostnaðinn. Móðirin Steinunn Hjartardóttir segist hafa heyrt að málið snúist um peninga en það sé þó ekki gefið upp.

Þegar móðurinni var stillt upp við vegg fyrir helgi, neitaði hún að skrifa undir beiðni um fóstur, nema Barnaverndarnefnd svaraði því hvað gerðist ef það gengi ekki upp.

Hún á hljóðupptöku af fundinum þar sem hún segir nefndina fara á bak við sig. Henni líði eins og það sé verið að ræna barninu. Hún biður ítrekað um að lögfræðingur sinn sé viðstaddur en við því var ekki orðið.


Stúlkan strauk úr fóstrinu
Barnaverndarnefnd féllst ekki á að bíða í sólarhring eftir lögmanni. Hún úrskurðaði að grípa skyldi til þess að fjarlægja barnið á grundvelli neyðarráðstöfunar.

Stúlkunni var svo komið fyrir í tveggja vikna þvinguðu fóstri í Garðabæ, en þaðan strauk hún tveimur dögum síðar.
Fyrsta desember þarf að úrskurða í málinu og þá þarf að leggja fram rökstuðning.

Katrín Oddsdóttir lögmaður segir málið stórfurðulegt og óttast um stúlkuna í allri þessari óvissu. Hún segist túlka lögin þannig að það þurfi að vera einhver neyð til staðar til að beita neyðarúrræði í lögum. Þetta sé sett í lögin til að hægt sé að fara framhjá ákveðinni málsmeðferð, af því að það séu hættulegar aðstæður fyrir barnið sem kalli á tafarlausar ráðstafanir. Það sé engu slíku til að dreifa í þessu máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×