Innlent

Nauðgunarmál í HR: Bæði atvikin að lokinni skólaskemmtun í miðbæ Reykjavíkur

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Tvær ungar konur sem stunda nám við Háskólann í Reykjavík eru urðu samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fyrir grófu kynferðisofbeldi.
Tvær ungar konur sem stunda nám við Háskólann í Reykjavík eru urðu samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fyrir grófu kynferðisofbeldi. vísir/ernir
Tvær kærur hafa verið lagðar fram í nauðgunarmáli sem Fréttablaðið greindi frá í gær að lögreglan hefði til rannsóknar.

Tveir karlmenn eru meintir gerendur í kynferðisbrotamálinu sem sagt er vera gróft. Annar mannanna er á fertugsaldri og er nemandi við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Hinn maðurinn er á svipuðum aldri og er ekki nemandi skólans.

Tvær skólasystur fyrrgreinds manns eru taldar hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á önnur að hafa orðið fyrir nauðgun af hálfu bekkjarbróður síns en hin af völdum beggja meintra gerenda. Því er um að ræða tvö atvik þar sem nemandi frumgreinadeildarinnar á að hafa beitt konurnar grófu kynferðislegu ofbeldi sinn daginn hvorri í október.

Í báðum tilvikum eiga meint brot að hafa átt sér stað eftir bekkjarskemmtanir í miðbæ Reykjavíkur.

Fréttablaðið hafði samband við nokkra nemendur sem eru í sama bekk og hlutaðeigandi. Þeir greindu frá því að málið hefði vakið mikinn óhug nemenda og kennara við skólann.

Níu dagar á milli

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins átti fyrra atvikið sér stað þann 7. október en þá hittust nemendur á svokölluðu pub quiz á skemmtistaðnum Austur. Umræddur nemandi á það kvöld að hafa nauðgað annarri stúlkunni. Um það mál var ekki upplýst fyrr en seinna atvikið hafði átt sér stað.

Síðara atvikið átti sér stað níu dögum síðar en þá hittust bekkjarfélagar á Slippbarnum. Meintir gerendur voru á staðnum en annar mannanna, sem ekki er nemandi við skólann, er starfsmaður Reykjavík Marina hótelsins, þar sem Slippbarinn er rekinn. Hann var þó ekki á vakt í umrætt skipti.

Eiga mennirnir að hafa farið með konunni í heimahús í Hlíðunum síðar um kvöldið og hún verið í annarlegu ástandi. Samkvæmt upplýsingum frá nemendum leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum. Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.

„Málið er til rannsóknar hjá lögreglu og við höfum ekkert um málið að segja. Við tjáum okkur ekki um mál einstakra starfsmanna,“ segir Birgir Guðmundsson, hótelstjóri Reykjavík Marina, aðspurður.

Þolandi mætti ekki í skólann

Upp komst um fyrra atvikið, eftir að síðara atvikið hafði átt sér stað. Þolandi í því máli hafði ekki mætt í skólann frá því að meint nauðgun átti sér stað.

Lögreglan staðfestir að búið sé að leggja fram kæru í málinu og að rannsókn sé í gangi.

„Við verjumst allra frétta af rannsókninni og getum ekki upplýst neitt frekar um rannsókn málsins en það sem hefur komið fram af okkar hálfu nú þegar,“ segir Árni Þór Sigmundsson yfirlögregluþjónn um málið.

Forsvarsmenn skólans vildu ekki veita frekari upplýsingar um málið en segja skólann hafi boðið þeim nemendum sem málið snertir alla þá aðstoð sem hann geti veitt.

Enn fremur hafi skólinn lagt áherslu á að nám hópsins geti haldið áfram með sem eðlilegustum hætti og að hlutaðeigandi nemendur þurfi ekki að hafa samskipti.

Nemendur sem Fréttablaðið talaði við sögðu að manninum hefði verið vikið tímabundið úr skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×