Innlent

Bíða eftir hollenskum rannsóknargögnum sem tengjast fíkniefnainnflutningi með Norrænu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Norræna í Seyðisfirði.
Norræna í Seyðisfirði. vísir/gva
Hollenskur karlmaður sem grunaður er um að smygla hátt í 80 kílóum af MDMA hingað til lands með Norrænu og handtekinn var í byrjun september hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 2. desember.

Kona mannsins sem einnig var handtekin grunuð um aðild að málinu verður áfram í farbanni til 18. nóvember. Hún var í gæsluvarðhaldi þar til um miðjan október en hefur verið í farbanni síðan.

Jónas Vilhelmsson hjá lögreglunni á Austurlandi sem fer með rannsókn málsins segir ómögulegt að segja til um hvenær rannsókn lýkur en hún sé á áætlun. Málið teygir anga sína til Hollands.

„Þar er rannsókn í gangi sem hefur áhrif á okkar mál og við erum að bíða eftir gögnum þaðan,“ segir Jónas.

Aðspurður hvort fíkniefnin sem parið er grunað um að hafa komið með hingað til lands hafi verið ætluð til sölu hér á landi eða hvort fara átti með efnin áfram úr landi, til dæmis til Bandaríkjanna, segist Jónas ekki geta tjáð sig um svo afmarkaðan hluta rannsóknarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×