Innlent

Slá ekki meðan land er blautt

Þórgnýr Albert Einarsson skrifar
Kornuppskera gengur illa vegna álftar og vætu.
Kornuppskera gengur illa vegna álftar og vætu. vísir/vilhelm
„Það hefur nánast ekkert færi gefist í október á að slá. Það eru mjög víða óslegnir akrar. Þar að auki fór sprettan í vor seint af stað og því hefur þroskinn verið seinna á ferðinni,“ segir Ólafur Eggertsson, formaður Landssambands kornbænda. Ólafur segir ástandið mjög dapurt á Norður- og Austurlandi en þó skárra að vestan og sunnan.

Ástæðuna segir hann mikla vætu, en ekki er hægt að slá meðan rignir og meðan landið er blautt.

Ólafur Eggertsson formaður Landssambands kornbænda. Fréttablaðið/GVA
Þeir bændur sem ekki náðu að slá akra sína í fyrri hluta september eru varla byrjaðir að slá.

Ólafur segir það mjög óvenjulegt, hann segir bændur venjulega vera að slá restina um þetta leyti. Sjálfur er Ólafur ekki búinn að slá sína akra og segist hann aldrei hafa lent í slíku áður.

„Sumstaðar eru fréttir af því að álft og gæs séu búnar að skemma akra. Það er vandamál á sumum svæðum sem engin leið er að ráða við. Menn hika við að auka við kornræktun á meðan þessi vágestur leggst á þetta ár eftir ár,“ segir Ólafur.

Ólafur segir þó að nú fari veður kólnandi og það geti leitt til þess að færi gefist á að slá akra.

„Menn eru ekki alveg vonlausir með að ná ökrum sem standa vel ennþá og hafa ekki verið troðnir niður af álft. Við játum okkur ekki sigruð ennþá en víða hafa akrar skemmst vegna bleytu, álftar eða gæsar,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×