Innlent

Lesa lítið og telja að pabbi eigi að gera við bílinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannsóknin var gerð á meðal nemenda í 5.-7. bekk.
Rannsóknin var gerð á meðal nemenda í 5.-7. bekk. vísir/villi
Ný rannsókn sem gerð var af Rannsóknum og greiningu á meðal nemenda í 5.-7. bekk í grunnskólum landsins í febrúar síðastliðnum sýnir að meirihluti barnanna ver minna en klukkustund á dag í að lesa aðrar bækur en skólabækurnar.

Ef litið er á tölfræðina eftir aldri og kyni sést að 27,7 prósent pilta í 5. bekk ver innan við hálftíma á dag í lestur, það er merkir við valmöguleikann „enga“ í rannsókninni. Þá verja 18,5 prósent stúlkna innan við hálftíma á dag í lestur.

Þá verja 23,9 prósent stráka í 6. bekk minna en hálftíma í lestur á dag og 16,4 prósent stelpna í sama árgangi. Í 7. bekk verja 17,8 prósent stúlkna innan við hálftíma í lestur daglega en hjá piltunum er hlutfallið 10 prósentustigum hærra, 27,8 prósent.

Tafla úr skýrslunni sem sýnir hversu miklum tíma börnin verja í lestur.
Strákum finnst leiðinlegra að lesa

Í rannsókninni var jafnframt hversu skemmtilegt eða leiðinlegt krökkunum þykir að lesa og sýna niðurstöðurnar að þeim sem þykir mjög eða frekar leiðinlegt fjölgar eftir því sem nemendur eru eldri. Í 5. bekk segja til að mynda 17 prósent barna að þeim þykir mjög eða frekar leiðinlegt að lesa, í 6. bekk er hlutfallið komið upp í 23 prósent og í 7. bekk er það komið upp í 30 prósent.

Auk þess sýna niðurstöðurnar áberandi kynjamun hvað þetta varðar þar sem strákum virðist finnast leiðinlegra að lesa en stelpum.

Rannsóknin sem gerð var er viðamikil og kannaði marga þætti í lífi barnanna, meðal annars almennt líðan þeirra, samband við foreldra og fjölskyldu og neysluvenjur.

20 prósent stúlkna í 7. bekk telja sig vera of feita

Börnin voru meðal annars beðin um að gefa álit á vaxtalagi sínu þegar almenn líðan þeirra var könnuð. Niðurstöðurnar sýna að hlutfall barna sem telja sig of feit eykst eftir því sem þau eldast. Þá virðast það frekar vera svo að stelpur telji sig of feitar og meira eftir því sem þær eldast.

Þannig telja 11 prósent stelpna í 5. bekk sig of feita, 15 prósent stúlkna í 6. bekk sig of feita og 20 prósent stelpna í 7. bekk. Á heildina litið telja flest börn sig þó vaxtalag sitt passlegt.

Konan þvoi þvottinn

Í ár voru krakkarnir í fyrsta skipti spurð út í viðhorf þeirra til kynjahlutverka í samfélaginu en spurt var út í verkaskiptingu á heimili þar sem kona og karl búa saman með börn og eru bæði í fullri vinnu. Spurt var út í húsverk á borð við þvott, þrif á íbúð, matarinnkaup, fara á foreldrafundi í skóla og gera við bílinn.

Í langflestum tilfellum voru börnin á því að verkaskiptingin ætti að vera jöfn á milli kynjanna en til undantekninga heyrðu annars vegar það að þvo fötin og hins vegar bílaviðgerðir. 27 til 38 prósent barna í 5.-7. bekk sögðu þannig að konan ætti frekar að þvo þvottinn og 67 til 77 prósent barna sögðu að karlinn ætti frekar að sjá um bílaviðgerðir.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×