Innlent

Óheimilt verði að skipa mann í embætti hafi hann gegnt því síðasta árið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigríður Á. Andersen er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Sigríður Á. Andersen er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. vísir/pjetur
Sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Verði frumvarpið að lögum verður óheimilt að skipa eða ráða mann til embættis ef hann hefur verið settur til að gegna því á síðustu tólf mánuðum.

Frumvarp sama efnis var flutt í nóvember 2012 en var aldrei tekið til umræðu. Þá var fyrsti flutningsmaður, líkt og nú, Sigríður Á. Andersen.

Árið 1996 varð heimilt að setja menn í embætti til reynslu í embætti áður en hann er skipaður í það en lagt er til þess að sú heimild verði felld úr lögum. Með þeirri breytingu sem nú er lögð til er ekki hróflað við þeirri almennu heimild til að setja menn til að gegna embætti heldur eingöngu verið að skjóta loku fyrir að hinn setti maður verði skipaður til sama embættis á sama tíma, eða skömmu eftir, að hann gegnir setningunni.

„Við setningu manns til embættis er að jafnaði einfaldari undir¬búningur en við skipun hans til þess, auk þess sem stór hópur vænlegra einstaklinga hefur ekki tök á að gegna setningu, með þeirri röskun sem slíkt er á högum þeirra. Með setningunni öðlast hinn setti hins vegar forskot á aðra væntanlega umsækjendur þegar til þess kemur að embættið verður auglýst laust til skipunar. Þá er fyrir hendi sú hætta að reynt sé að styrkja stöðu hugsanlegs framtíðarumsækjanda með því að afla honum reynslu í embættið sem aðrir hafa ekki sömu möguleika á að afla sér,” segir í greinargerð með frumvarpinu.

Auk Sigríðar standa Birgir Ármannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Jón Gunnarsson og Elín Hirst að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×