Innlent

Mun huga að fagurfræðilegri stefnu í húsnæðismálum ríkisins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forsætisráðherra hefur endurvakið embætti húsameistara ríkisins en hlutverk embættisins verður meðal annars að samræma stefnu í húsnæðismálum ríkisins. 

Eins og frægt er orðið orti Steinn Steinarr í ljóðinu Hallgrímskirkja: „Húsameistari ríkisins, Ekki meir, Ekki meir,“ en skáldið var ekki hrifið af byggingunni. Núna hefur forsætisráðherra endurvakið embætti húsameistara ríkisins en forsætisráðherra er mikill áhugamaður um byggingar- og skipulagsmál. Stefán Thors, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, mun gegna því starfi. 

„Þetta er liður í endurskipulagningu hér í ráðuneytinu þannig að það uppfylli hlutverk sitt sem best og á sem hagkvæmastan hátt. Þarna fer undir einn hatt margt sem viðkemur fasteignum, nýframkvæmdir, hugsanleg útboð en einnig öryggismál og fleira,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. 

Forsætisráðherra segir að það verði meðal annars verkefni húsameistarans að huga að fagurfræði og arkitektúr þegar húsnæði ríkisins eru annars vegar. „Það hefur verið bent á að ástæða sé til að huga að þessu. Félag arkitekta hefur sýnt þessu áhuga og auðvitað ætti ríkið að huga að fagurfræði í byggingarlist.“

Sigmundur Davíð segir að undir embætti húsameistara verði líka minjavernd og skipulagsmál þegar fasteignir ríkisins eru annars vegar. Sjá má viðtal við Sigmund Davíð í myndskeiði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×