Innlent

Tuttugu og einn bíll skemmdur í Skeifunni

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Skemmdu bílana eiga bæði viðskiptavinir fyrirtækjanna og starfsmenn.
Skemmdu bílana eiga bæði viðskiptavinir fyrirtækjanna og starfsmenn. vísir/stefán
„Það voru brotnar rúður og gramsað í tuttugu og einum bíl og við erum auðvitað fælnir eftir svona,“ segir Kristmundur Þórisson, eigandi Almenna bílaverkstæðisins ehf., en í byrjun mánaðarins voru brotnar rúður í tuttugu og einum bíl á sameiginlegu bílastæði verkstæðisins og fleiri fyrirtækja í Skeifunni 5.

Fyrst var lögreglu tilkynnt um að brotnar hefðu verið rúður í sex bílum á planinu, rótað í þeim og ýmsu smálegu stolið. Tveimur dögum síðar endurtók leikurinn sig nema þá höfðu rúður verið brotnar í fimmtán bílnum. Í bæði skiptin voru spellvirkin unnin að næturlagi.

Þjófnaður er óverulegur og skemmdarfýsn virðist ráða för.vísir/stefán
Bílana eiga bæði viðskiptavinir fyrirtækjanna og starfsmenn.

„Fólk er oft með fullt af dóti í bílunum sínum og í svona tilvikum er fólk ótryggt nema það sé með kaskótryggingu eða heimilistryggingu sem tekur til þessa,“ segir Kristmundur og bætir við að hann hafi áhyggjur af því að sökudólgarnir fari aftur á kreik.

Magnús Helgi Jónsson, stöðvarstjóri Aðalskoðunar hf., var sá sem tilkynnti lögreglu um fyrra tilvikið. 

Hann segir að þeir sem hafi verið að verki hafi líklegast verið að leita að peningum. „Því þeir stálu ekki miklu úr þessum bílum og létu til dæmis útvarpstækin alveg vera,“ segir Magnús Helgi.

„Eftir því sem ég best veit var engu stolið úr bílunum frá viðskiptavinum okkar en þetta eru hins vegar skemmdir. Eftir atvikið setjum við alla bíla inn á næturnar,“ segir Atli Vilhjálmsson, verkstjóri hjá Betri bílum ehf., en viðskiptavinir þeirra urðu einnig fyrir tjóni.

Á fundi húsfélagsins í Skeifunni 5 hefur það verið rætt að bæta lýsingu á bílaplaninu og koma fyrir myndavélum. „Mér finnst líklegt að við látum verða af því og verður það til þess að auka fælingarmáttinn,“ segir Kristmundur en hann er formaður húsfélagsins.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum því miður bara engu nær um það hverjir voru að verki,“ segir Benedikt Lund lögreglufulltrúi. 

„Því ver og miður eru þarna einhverjir einstaklingar sem mér sýnist hafa þann tilgang einan að eyðileggja. Það er ekki svo óalgengt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×