Innlent

Verulega hægir á vexti makríls

Svavar Hávarðsson skrifar
Á tíu ára tímabili hefur meðalþyngd makríls minnkað um þriðjung.
Á tíu ára tímabili hefur meðalþyngd makríls minnkað um þriðjung. vísir/óskar
Vaxtarhraða og holdafari makríls í Norðaustur-Atlantshafi hefur hrakað jafnt og þétt síðan árið 2004. Síaukin samkeppni um takmarkaða fæðu er talin vera helsta orsökin.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar á árlegum breytileika í vaxtarhraða og holdafari makríls á tímabilinu frá 1984 til 2013 sem vísindamenn frá Noregi, Færeyjum og Hafrannsóknastofnun birtu nýlega í tímaritinu ICES Journal of Marine Science, eins og kemur fram í frétt Hafró.

Algengt er að vaxtarhraði og holdafar fisks sveiflist milli ára og einn af þeim þáttum sem hafa áhrif þar á er stærð stofnsins. Það sem er sérstakt við makrílinn er hversu mikið hefur hægt á vexti hans undanfarin ár. Sem dæmi þá var 8 ára fiskur árið 2013 að meðaltali jafn langur og jafn þungur og 4 ára fiskur var árið 2004.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að bæði stærð makrílstofnsins og stærð norsk-íslenska vorgotssíldarstofnsins hafi neikvæð áhrif á vöxt makríls en breytileiki í hitastigi sjávar hafði engin áhrif.

Fæðunám makríls á ársgrundvelli er nánast einskorðað við sumarið og auk þess að nota orkuna til vaxtar notar fiskurinn orkuna sem hann hefur safnað til að ferðast milli svæða og til að framleiða hrogn og svil. Hægari vöxtur og lélegra holdafar hafa bæði neikvæð áhrif á lífslíkur einstaklingsins og líkurnar á því að hrygning hans heppnist vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×