„Já, okkur þótti þetta skemmtilegt þegar við sáum fréttirnar í morgun,“ segir Guðrún Margrét Örnólfsdóttir markaðsstjóri Smáralindar í samtali við Vísi.
Hún er að vísa til þessarar fréttar hér, sem finna má á mbl.is frá í morgun þar sem talað er um Óríoníta fyrir ofan Garðabæ. Í fréttinni segir: „Samkvæmt ábendingu sem mbl.is barst mátti sjá 6-8 ljósblá ljós yfir Garðabæ í um þrjá tíma í gærkvöldi.“
Þetta hefur verið talið til þess að loftsteinadrífan Óríonítar eru í hámarki nú um mundir og þá er ekki hægt að skjóta loku fyrir að hugsanlega hafi þarna verið flugandi furðuhlutir á ferð; 6 – 8 ljósblá ljós í þrjá tíma?
En, því miður eru skýringarnar á ljósunum ekki eins spennandi og þær. Þannig var að í gærkvöldi var efnt til mikillar ljósasýningar í Smáralind, og stóð hún einmitt yfir í þrjá tíma, sjö ljóskastarar beindu ljósbláum geislum sínum til himins.
„Já, mér finnst það líklegt. Tímaramminn passar. En, við fengum strákana í Hljóðx til að hjálpa okkur að búa til skemmtilega stemmningu í húsinu vegna miðnæturopnunar, þar sem þemað var vetrarríki í Smáralind. Og þeir bjuggu til ljóskeilur sem við beindum út um loftglugga í austurenda Smáralindar. Þeir mynduðu skemmtileg ljós á himnum. Frábært ef við höfum náð að skemmta fólki út fyrir húsið,“ segir Guðrún Margrét, og má heyra að henni er skemmt.
Dularfull ljós yfir Garðabæ líklega ljóskastarar í Smáralind
Jakob Bjarnar skrifar
