Innlent

Fagna nýrri stefnu í náttúruvernd

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar
Landvernd fagnar því að náttúruvernd sé gert hátt undir höfði í nýrri ferðamálastefnu sem kynnt var fyrir helgi.

Að mati samtakanna felst í stefnunni viðurkenning á að náttúran sé hornsteinn ferðaþjónustunnar og að hana beri að vernda. Telur Landvernd nú þurfa að stíga skrefið til fulls og sameina starfsemi níu stjórnsýslueininga sem hafa umsjón með landi í eigu ríkisins og að fulltrúi náttúruverndarsamtaka ætti að eiga sæti í stjórnstöð ferðamála til að auka þekkingu og aðhald í náttúruverndarmálum.

Í nýrri stefnu ferðamála er lagt til að umsjá þjóðgarða, friðlýstra svæða og þjóðlendna verði á einum stað í framtíðinni til að tryggja skilvirka stjórnsýslu, náttúruvernd og skerpa á rekstrarforsendum. „Landvernd fagnar þessu sem fyrsta skrefi en við viljum ganga enn lengra í að sameina þá opinberu aðila sem fara með umsjá lands,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Hann bendir á að umsjá og stjórnsýslu verndarsvæða og lands í eigu ríkisins sé núna fyrir komið á níu stöðum í stjórnsýslunni. „Og því er best að koma þessu fyrir á einni hendi til að tryggja þessa sömu þætti og ný ferðamálastefna leggur áherslu á,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×