Innlent

Símaþjófur sem var gripinn í Austurstræti var með nokkra síma á sér

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan handtók manninn í Austurstræti aðfaranótt sunnudags.
Lögreglan handtók manninn í Austurstræti aðfaranótt sunnudags. vísir/tumi
Erlendur karlmaður var handtekinn í Austurstræti aðfaranótt sunnudags grunaður um símaþjófnað á skemmtistaðnum Austur. Það var árvökull dyravörður sem veitti manninum eftirtekt og varð vitni að því þegar maðurinn fór ofan í tösku og tók þaðan síma.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um málið sem handtók manninn skömmu síðar sem reyndist vera með nokkra síma á sér sem hann gat ekki gert grein fyrir. Voru þeir því teknir af manninum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er málið til rannsóknar og þá verið að kanna hvort símarnir sem teknir voru af manninum tengist einhverjum af þeim fjölda símaþjófnaða sem hafa átt sér stað á skemmtistöðum í miðborg Reykjavíkur.

Sjá einnig:Stolnir símar á leið úr landi: Öllum stolið á veitingahúsum í Reykjavík

Hefur lögreglan ítrekað varað þá sem sækja skemmtistaði við því að passa vel upp á eigur sínar sökum símaþjófa og hafa skemmtistaðir einnig komið upp öflugu eftirlitskerfi til að stemma stigum við slík afbrot.

Greint var frá því í maí síðastliðnum að tollverðir hefðu stöðvað póstsendingu sem var á leið úr landi og reyndist geyma fjóra stolna síma. Þá kom fram að lögreglan hefði beðið tollverði um að fylgjast sérstaklega með póstsendingum úr landi að beiðni lögreglu vegna tíðra símaþjófnaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×