Fótbolti

Eiður Aron, Hjörtur Logi og félagar unnu sjötta leikinn í röð | Úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eiður Aron var fyrirliði ÍBV á sínum tíma.
Eiður Aron var fyrirliði ÍBV á sínum tíma. Vísir/Stefán
Eiður Aron Sigurbjörnsson, Hjörtur Logi Valgarðsson og félagar í Örebro unnu sjötta leik sinn í röð í sænsku úrvaldeildinni í knattspyrnu í dag í 2-1 sigri á Falkenberg.

Með sigrinum gulltryggði Örebro sæti sitt í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

Hjörtur og Eiður voru báðir í byrjunarliði Örebro að vanda og léku allar 90 mínúturnar en eftir að hafa lent undir tókst leikmönnum liðsins að snúa taflinu við í seinni hálfleik á heimavelli með mörkum frá Martin Broberg og Karl Holmberg.

Í seinni leik dagsins í sænska boltanum unnu Rúnar Már Sigurjónsson, Jón Guðni Fjóluson og félagar í GIF Sundsvall mikilvægan 2-1 sigur á Gefle.

Rúnar Már lék allar nítíu mínúturnar en Jón Guðni kom inn af bekknum undir lok leiksins.

Sigurinn þýðir að sæti Sundsvall í efstu deild er nánast tryggt en félagið er með sjö stiga forskot á Falkenberg í síðasta fallsætinu þegar þrjár umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×