Fótbolti

Hannes Þór og félagar aftur á sigurbraut

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson, markvörður NEC.
Hannes Þór Halldórsson, markvörður NEC. Vísir/Getty
Hannes Þór Halldórsson og félagar í NEC Nijmegen komust aftur á sigurbraut með 4-1 sigri á Ado Den Haag í hollensku úrvalsdeildinni í dag. Kristján Gauti Emilsson var ekki í leikmannahóp NEC í dag.

NEC hafði ekki tapað í fjórum leikjum fyrir leik liðsins gegn hollensku meisturunum í PSV í síðustu umferð en PSV hafði betur 2-1 á heimavelli í þeim leik.

NEC fékk sannkallaða draumabyrjun á heimavelli í dag þegar Aaron Meijers, leikmaður Ado Den Haag stýrði boltanum í eigið net á fyrstu mínútu leiksins en Vito Wormgoor jafnaði metin fyrir gestina um miðbik fyrri hálfleiks.

Staðan var því jöfn að fyrri hálfleik loknum en seinni hálfleikur var eign NEC Nijmegen. Christian Santos kom NEC yfir á 63. mínútu og bætti Anthony Limbombe við þriðja marki NEC skömmu síðar. Santos var aftur á ferðinni tíu mínútum fyrir leikslok og gerði út um leikinn er hann skoraði fjórða mark NEC.

Sigurinn þýðir að nýliðarnir í NEC eru í 6. sæti eftir átta umferðir en félagið hefur þegar mætt stórliðunum tveimur, Ajax og PSV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×