Innlent

Skrifstofa borgarfulltrúa segir upp áskriftum að Mogga og DV

Jakob Bjarnar skrifar
Skrifstofa borgarfulltrúa hefur sagt upp áskriftum að fjölmiðlum, Eggert og Sveinbjörg Birna telja það vafasamt sparnaðarráð, og Eggert skorar á borgarstjóra sjálfan að gerast áskrifandi að DV ef hann er það ekki nú þegar.
Skrifstofa borgarfulltrúa hefur sagt upp áskriftum að fjölmiðlum, Eggert og Sveinbjörg Birna telja það vafasamt sparnaðarráð, og Eggert skorar á borgarstjóra sjálfan að gerast áskrifandi að DV ef hann er það ekki nú þegar.
Skrifstofa borgarstjórnar hefur sagt upp öllum áskriftum að fjölmiðlum. Ákvörðunin tók gildi 1. september. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi telur þetta einkennilegan gjörning.

Uppfært 11:30

Áréttað er, eins og segir í fyrstu setningu þessarar fréttar, að það er skrifstofa borgarstjórnar en ekki skrifstofa borgarstjóra sem hefur sagt upp áskriftunum. Á þessu tvennu er nokkur munur. Upphafleg fyrirsögn fréttarinnar, Borgarstjóri segir upp áskriftum að Mogga og DV, er misvísandi og hefur henni nú verið breytt vegna þessa. Er beðist velvirðingar á þessu.

Sjá nánar hér.

„Eitt skal yfir alla ganga og svo virðist sem uppsögnin snúi aðeins að skrifstofu borgarstjórnar, þannig að kjörnir fulltrúar hafa ekki aðgengi að prentmiðlum eftir að ákveðið var að segja þeim upp. Eitt helsta hlutverk fjölmiðla í samfélaginu er að veita hinu opinbera aðhald. Um það er ekki deilt. Ef borgin ætlar að bregðast við með því að hunsa fjölmiðla, þá er það alvarlegt mál,“ segir Sveinbjörg Birna í samtali við Vísi.

Hún vakti fyrst athygli á málinu á Facebook þar sem hún segist einnig ætla að óska eftir því að Fréttablaðið berist ekki á skrifstofuna. Ber hún jafnræðisreglunni við.

Fótum sparkað undan samfélagslegu hlutverki

Sveinbjörg Birna hefur talað mjög fyrir sparnaði hjá hinu opinbera, en þarna telur hún verið að sparka fótum undan samfélagslegu hlutverki fjölmiðla.

Eggert Skúlason ritstjóri DV hafði ekki frétt af þessu fyrr en Vísir hafði samband við hann. „Er þetta ekki svipað og með Ísraelsályktunina? Að taka eigi fyrir hópa og ákveða að eiga ekki í samskiptum við þá? Ég spyr,“ segir Eggert.

Hann vill ekki gera lítið úr því að borgin þurfi að spara. „Ég treysti því að þetta verði nú ekki eina sparnaðarráðstöfunin. Að þetta sé ekki það eina sem skilji á milli. Einhvers staðar verða menn að byrja en ég veit að vinnuumhverfi starfsmanna borgarinnar verður fátæklegra fyrir vikið, alla veganna við það að missa DV. Ég átta mig ekki á umfanginu og hvaða fjármunir sparast við þetta?“

Hálfgerður barnaskapur

Eggert segist ekki vita hvort borgarstjóri sé áskrifandi að DV í gegnum vinnu sína en hann vill nota tækifærið og skora á Dag B. Eggertsson að gerast áskrifandi sjálfur, persónulega, ef hann er það ekki nú þegar. En, telur Eggert þetta hugsanlega vera lið í því að vilja sniðganga, eða setja viðskiptabann á þá gagnrýni sem fram hefur verið sett á borgaryfirvöld í DV?

„Nei, ég horfi alls ekki þannig á það. Ég held að þetta sé, ef þetta er raunin, hálfgerður barnaskapur. Að fara í það að skera burtu fjölmiðla sem ég held að starfsmenn borgarfulltrúar hafi gott af því að fylgjast með. Ég reikna með því að þessi ákvörðun verði dregin til baka líka.“

Færslu Sveinbjargar má sjá hér að neðan.

Nú er skrifstofa borgarstjóra í sparnaðrskyni búinn að segja upp áskriftum af Morgunblaðinu og DV, sem hefur legið hérna...

Posted by Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir on Monday, September 21, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×