Innlent

Jusu sjó úr bátnum í þrjá tíma: „Erum ennþá að jafna okkur í fótunum“

Bjarki Ármannsson skrifar
Kafarar fundu orsök lekans og náðu að gera við til bráðabirgða. Mynd úr safni.
Kafarar fundu orsök lekans og náðu að gera við til bráðabirgða. Mynd úr safni. MYND/OTTI RAFN SIGMARSSON
„Þetta fer í reynslubankann,“ segir Jóhann Guðni Jóhannsson, skipverji á togaranum Ásbirni sem leki kom að undan Vestfjarðarmiðum í gærmorgun. Björgunarskip Landsbjargar var sent út frá Ísafirði til aðstoðar en þangað til það kom máttu áhafnarmeðlimir hafa sig alla við að ausa sjó úr skipinu í fötum.

„Við vorum á togi vestan við Hala og allt í einu hringir stýrimaðurinn og segir að við þurfum að hífa, það sé byrjað að leka,“ segir Jóhann. „Við hífum og svo er okkur sagt að fara niður í vélarrými að bera þaðan sjó.“

Dælurnar tvær á bátnum dugðu ekki til að dæla út sjónum, svo hratt flæddi inn. Til að koma í veg fyrir að tækjabúnaður í vélarrýminu skemmdist þurftu Jóhann og níu aðrir skipverjar að bera fullar fötur af sjó úr vélarrýminu og upp á dekk í um þrjár klukkustundir.

„Við hættum þegar björgunarskipið kom með aðra dælu,“ segir Jóhann.

Stórt gat kom á bátinn beint undir vélinni en að sögn Jóhanns er ekki vitað hvernig það gerðist. Á Ísafirði gerðu kafarar tímabundið við gatið og lagt var af stað suður til Reykjavíkur í gær. Jóhann og félagar komu svo heim eftir hádegi í dag.

„Við vorum alveg gjörsamlega búnir á því, þetta var ótrúlegt,“ segir hann. „Við erum bara ennþá að jafna okkur í fótunum eftir þetta.“

Ásbjörn fer í slippinn í fyrramálið og segir Jóhann að lagt verði af stað aftur þegar búið er að laga hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×