Innlent

Japanir hrifnir af íslenskum banönum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Borgarstjóri japönsku borgarinnar Izu, aðstoðarmaður hennar og Japanski sendiherrann gæddu sér á alíslenskum banönum.
Borgarstjóri japönsku borgarinnar Izu, aðstoðarmaður hennar og Japanski sendiherrann gæddu sér á alíslenskum banönum. Mynd/Aldís Hafsteinsdóttir
„Þau voru mjög hrifin af alíslenskum banönum, enda mjög gómsætir,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, en Mitsuko Shino, sendiherra Japans, og Yutaka Kikuchi, borgarstjóri Izu í Japan, heimsóttu Hveragerðisbæ á dögunum.

„Þau komu hingað til þess að kynna sér starfsemi íslenskra sveitarfélaga og notkun jarðvarma. Við fórum saman að heimsækja garðyrkjudeild Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum til þess að skoða banana sem þar eru ræktaðir ásamt tilraunahúsi garðyrkjunnar,“ segir Aldís.

Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum, tók vel á móti gestunum að sögn Aldísar. Á Reykjum eru ræktuð fimm hundruð kíló af banönum á ári.

„Við ræddum nokkuð lengi um málefni er tengja þjóðirnar. Þá sögðu þau mér að í borginni Izu búi um þrjátíu og tvö þúsund manns en þar fæðist einungis um 130 börn á ári, enda leggi Japanir mestu áhersluna á sjálfa sig og hafi ekki pláss fyrr börn eða maka. Til að bregðast við þessu hafi yfirvöld í Izu ákveðið að greiða verðandi mæðrum fjögur hundruð dali við 26. viku meðgöngu svo þær geti búið sig sem best undir fæðingu barnsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×