Innlent

Eygló er sátt við framlög til húsnæðismála

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra vísar á bug allri gagnrýni á húsnæðisliðinn í fjárlagafrumvarpinu og segist mjög sátt. Hún segir að bæði stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin eigi eftir að sjá miklar breytingar í þessum málaflokki á næstu árum. „Við erum núna að gera eins og við lofuðum að huga að leigumarkaðnum eins og við töluðum um við aðila vinnumarkaðarins,“ segir Eygló. Horft sé til þess að byggja 2300 leiguíbúðir á næstu fjórum árum. Þá sé verið að hækka húsnæðisstuðning til leigjenda á næstu tveimur árum og hækka frítekjumark leigusala. „Ég tel að fólk muni sjá verulegan mun þegar þessar aðgerðir ganga í gildi,“ segir Eygló.

Gert er ráð fyrir 1500 milljónum til byggingar félagslegra íbúða á þessu ári en á sama tíma er skorið niður um 1500 milljónir í vaxtabótakerfinu. Húsaleigubætur hækka um 1100 milljónir en 400 milljónir eru sóttar til heimilda fyrra árs.

Segir fyrirheitin svikin

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir að fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf verkalýðshreyfingunni hafi verið svikin.
 „Það er alveg ljóst að hálfu verkalýðshreyfingarinnar að það er ekki verið að standa við samkomulag frá því í vor um byggingu 600 nýrra leiguíbúða á ári. Þegar maður horfir á fjárframlögin stingur það í augun að það verið að leggja upp með 1500 miljónir í viðbót, í félagslegt íbúðarhúsnæði, en af því að ríkisstjórnin verðbæti ekki viðmið vegna vaxtabóta og hækkandi tekna, þá sé ríkið að spara sér 1500 milljónir til vaxtabóta.“
Hann segir að þannig séu í raun engin ný útgjöld til húsnæðismála og meðaltekjufólkið sé að detta út úr vaxtabótakerfinu og í raun að greiða þessi framlög.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×