Enski boltinn

Leicester upp í 2. sætið með mögnuðum sigri | Sjáðu mörkin

Leicester City vann magnaðan endurkomusigur, 3-2, á Aston Villa í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Útlitið var ekki gott fyrir Refina þegar Carles Gil kom Villa í 0-2 með fallegu skoti á 63. mínútu. En lærisveinar Claudio Ranieri gáfust ekki upp, skoruðu þrjú mörk á lokakaflanum og tryggðu sér sigurinn sem kemur þeim upp í 2. sæti deildarinnar.

Jack Grealish kom Villa yfir á 39. mínútu og Gil tvöfaldaði svo forystuna á 63. mínútu eins og áður sagði.

En belgíski bakvörðurinn Richie De Laet minnkaði muninn í 1-2 á 72. mínútu og 10 mínútum síðar jafnaði Jamie Vardy metin með skoti af stuttu færi eftir frábæra sókn Leicester og fyrirgjöf Danny Drinkwater. Þetta var þriðja mark Vardy á tímabilinu en hann átti flottan leik í dag.

Það var svo varamaðurinn Nathan Dyer sem skoraði sigurmark Leicester á 89. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Alsíringsins Riyad Mahrez. Dyer var hugaður er hann skoraði en hann fékk Brad Guzan, markvörð Villa, á fleygiferð á sig og lá óvígur eftir.

Fleiri urðu mörkin ekki og Leicester fagnaði frábærum sigri en Ranieri er greinilega að gera flotta hluti með liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×