Fótbolti

Vandræðagangur Pirlo og félaga heldur áfram | Kristinn ekki í hóp

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ekkert gengur hjá Pirlo og félögum.
Ekkert gengur hjá Pirlo og félögum. Vísir/Getty
Stjörnum prýtt lið New York City FC tapaði í kvöld sínum þriðja leik í röð en liðið hefur nú aðeins fengið eitt stig úr síðustu fjórum leikjum sínum í MLS-deildinni.

Að vanda voru stórstjörnurnar þrjár, Andrea Pirlo, Frank Lampard og David Villa í byrjunarliði New York City sem lenti 2-0 undir þegar Dallas FC skoraði tvö mörk í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Voru allar þrjár stjörnur liðsins teknar af velli í seinni hálfleik en New York City tókst ekki að jafna metin þrátt fyrir að hafa minnkað muninn í seinni hálfleik.

Kristinn Steindórsson var ekki í leikmannahóp Columbus Crew sem lagði Philadelphia Union að velli 2-1 á útivelli í kvöld.

Columbus Crew berst þessa dagana um sæti í úrslitakeppni MLS-deildarinnar en Kristinn sem er á sínu fyrsta tímabili í deildinni hefur ekki fengið mörg tækifæri í ár.

Þá lauk leik LA Galaxy og Montreal Impacts með jafntefli í Los Angeles í nótt. Steven Gerrard, Robbie Keane og Didier Drogba léku allar 90 mínútur leiksins en þeim tókst ekki að komast á blað.

Úrslit kvöldsins:

Philadelphia Union 1-2 Columbus Crew

Dallas 2-1 New York City FC

Houston Dynamo 1-3 Real Salt Lake

Colorado Rapids 1-1 DC United

SJ Earthquakes 1-1 Seattle Sounders

LA Galaxy 0-0 Montreal Impact




Fleiri fréttir

Sjá meira


×