Innlent

Hafa áhyggjur af skorti á ráðdeild og aðhaldssemi í fjárlögum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hrafn Steinarsson hjá greiningu Arion banka
Hrafn Steinarsson hjá greiningu Arion banka 365/ÞÞ
Sérfræðingur í greiningu Arion banka segir að fjárlagafrumvarp næsta árs endurspegli ekki mikla ráðdeild í ríkisfjármálum. Þá telur hann að skattalækkanir geti komið á röngum tíma og ýtt undir þenslu í hagkerfinu.

Vaxtakostnaður hefur verið einn stærsti útgjaldaliður ríkisins á síðustu árum en ríkissjóður hefur verið að borga um 80-85 milljarða króna í vexti á ári á síðustu árum. Færð hafa verið fyrir því rök að lækkun vaxtakostnaðar ríkisins sé í raun stærsta velferðarmálið því þessir fjármunir sem fara í vexti myndu nýtast betur við innviðuppbyggingu og í velferðarþjónustu.

Þegar Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í Hörpu birti hann glæru sem sýnir áætlun um endurgreiðsluferil og lækkun vaxtakostnaðar ríkisins. Samkvæmt þessari áætlun mun vaxtakostnaður fara úr 76,8 milljörðum króna á þessu ári á verðlagi ársins niður í 62,9 milljarða króna á árinu 2019. Þegar Bjarni sýndi þessa glæru á fundinum sagði hann eftirfarandi:

„Ég hygg að það sé vandfundið það land í Evrópu sem getur birt jafn mikla lækkun á heildarskuldum sínum eins og dregst upp á þessari mynd sem við erum að horfa á hér. Ég hygg að það land sé ekki til.“

Útgjöld að aukast um 36 milljarða milli ára

Ríkissjóður mun skila 15,3 milljarða króna afgangi samkvæmt fjárlagafrumvarpinu en útgjöld eru samt að aukast um 36 milljarða króna milli ára. Stór hluti útgjaldaaukningarinnar er að vísu vegna mikilla launahækkana í nýgerðum kjarasamningum ríkisstarfsmanna, eins og lækna, hjúkrunarfræðinga og kennara. Ný útgjaldaukning án karasamninga er 12,4 milljarðar króna.

Hrafn Steinarsson sérfræðingur í greiningardeild Arion banka segir ekki sé mikil ráðdeild í fjárlagafrumvarpinu og það hefði verið skynsamlegra að skila meiri afgangi á ríkissjóði. Þá hefur hann áhyggjur af áhrifum skattalækkana á verðbólgu.

„Við hefðum viljað sjá meiri aðhaldsaðgerðum teflt fram. Þetta eru minni aðhaldsaðgerðir en við höfum séð undanfarin 6-7 ár. Þegar þetta tvennt fer saman, útgjaldaaukningin og lækkun skatta sem mun auka ráðstöfunartekjur almennings, maður hefur áhyggjur af því að þetta muni ýta undir þenslu í hagkerfinu,“ segir Hrafn.

Í fréttum Stöðvar 2 á föstudag sagði Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins efnislega það sama um skattalækkanir, að þær gætu orðið þensluhvetjandi. Þorsteinn sagði krafist væri mikill prósentubreytinga hjá gerðardómi og í opionberum samningum. Ef sátt um launastefnu næðist ekki og laun væru að hækka um tugi prósenta á næstu misserum væru engar forsendur fyrir skattalækkunum sem á að ýta úr vör á næsta ári og á árinu 2017. Þorsteinn sagði að þær gætu í raun virkað eins og olía á eld. Sjá má viðtalið við Þorstein hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×