Innlent

Skellinöðrumenn valda skelfingu á Völlunum

Jakob Bjarnar skrifar
Einn íbúi segir ástandið skelfilegt: "Fæ alveg illt í hjartað þegar ég heyri í þessum hjólum í hverfinu.“
Einn íbúi segir ástandið skelfilegt: "Fæ alveg illt í hjartað þegar ég heyri í þessum hjólum í hverfinu.“
„Það þarf að stoppa þennan vitleysing sem ekur um einsog hálfviti á skellinöðru hérna um hverfið. Stórhættulegur sér og öðrum,“ skrifar Andrés Helgason á Facebook-svæðið Vellirnir mínir - íbúar á Völlum í Hafnarfirði. Og gefur til kynna að hann sé búinn að fá sig algerlega fullsaddan á ökufanti sem fer um hverfið með látum og  á glönnum sem fara um hverfið með hávaða og látum og skapa hættu.

Meðlimir hópsins kannast mæta vel við þetta ófremdarástand sem skapast hefur á Völlunum, það hefur verið tilkynnt til lögreglu en þegar hún mætir á svæðið eru mótorhjólafantarnir á bak og burt.

Róbert Jónsson segir ansi „mikið um „krossara“ að þvælast á göngustígum munaði litlu að ég og strákurinn minn yrðum keyrðir niður.“ Og Andrés Helgason segir þetta stórhættulegt ástand. „Þarf bara sekúndubrot. Eitthvað barn að fara yfir götu eða á göngustígum. Þarf að stoppa þetta.“

Fjölmargir íbúar Vallanna taka í sama streng og Hanna Þóra Helgadóttir upplýsir um að hún hafi tilkynnt þetta nokkrum sinnum til lögreglu í sumar. „En auðvitað eru þeir í bak og burt þegar hún mætir á svæðið en a.m.k er þá búið að skrá þetta niður. Þetta er alveg skelfilegt, fæ alveg illt í hjartað þegar ég heyri í þessum hjólum í hverfinu.“

Íbúar greina frá reynslu sinni margir hverjir og ljóst má vera að ófremdarástand ríkir á Völlunum og því valda dólgslegir glannar á mótorhjólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×