Innlent

Gegnumslag í Norðfjarðargöngum

Atli ísleifsson skrifar
Starfsmenn verktaka voru að vonum ánægðir þegar ljóst var að gat hafði opnast í gegn.
Starfsmenn verktaka voru að vonum ánægðir þegar ljóst var að gat hafði opnast í gegn. Mynd/Ófeigur Örn Ófeigsson
Gegnumslag var í Norðfjarðargöngum klukkan 10 í morgun en framkvæmdir hafa staðið yfir frá nóvember 2013.

Í tilkynningu frá Hnit verkfræðistofu segir að aðeins sjö metrar hafi verið eftir ósprengdir, en hver sprengifæra er fimm metrar.

„Það var jafnvel búist við því, að það tveggja metra haft sem eftir væri myndi gefa sig að einhverju leyti og sú varð raunin, því efri hluti þess féll. Enn stendur þó eftir hluti veggja. Nú verða göngin styrkt og undirbúin fyrir formlega hátíðarsprengingu þann 25. september. Einnig er eftir lítilsháttar sprengivinna í útskotum sem sinnt verður á meðan.“

Um fimmtíu manns hafa starfað við gerð gangnanna síðustu mánuði en þau verða rúmir 7,5 kílómetrar að lengd og munu tengja saman Eskifjörð og Norðfjörð.

Á vef Vegagerðarinnar segir að áætlaður heildarkostnaður við verkið sé áætlaður rúmir 12 milljarðar króna á verðlagi í febrúar 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×