Innlent

Fer sjóleiðis í vinnuna frá Grafarvogi í miðbæinn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Alexander Gylfason fer sjóleiðis í vinnuna frá Grafarvogi í miðbæ Reykjavíkur á hverjum degi og segir það mun ódýrara, umhverfisvænna og skemmtilegra en að fara akandi eins og flestir gera. Hann hvetur Íslendinga til að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að samgöngum. 

Morgunumferðin er líklega ekki í uppáhaldi hjá neinum en Alexander Gylfason sleppur alfarið við hana þrátt fyrir að vera búsettur í Grafarvogi og vinna í miðbænum.  Hann er tæpar fimmtán mínútur í vinnuna og segist vera mun fljótari en á bíl, því þannig sleppur hann við umferðaljós og stöðumæla.

Alexander segist undrast að sjósamgöngur séu ekki nýttar meira, þær séu ódýrar og hagkvæmar en samgöngukostnaður hans er um 15 þúsund krónur á mánuði. Tíu þúsund í hafnargjöld og afgangurinn fer í olíu. Þá sparar hann líka í matarinnkaupum en í bátnum er veiðistöng sem hann notar til að veiða í soðið á leiðinni heim. Alexander segir bátinn falla í kramið hjá vinnufélögum hans, en þar eru til að mynda stundum haldnir vinnufundir.

Stöð 2 fylgdi Alexander í vinnuna í morgun og spjallaði við hann um þennan frumlega ferðamáta eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×