Innlent

Leikskólabörnum fækkað um 20 prósent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leikskólanum Sjónarhóli verður lokað í vetur vegna fækkunar leikskólabarna í Grafavogi.
Leikskólanum Sjónarhóli verður lokað í vetur vegna fækkunar leikskólabarna í Grafavogi.
Leikskólanum Sjónarhóli í Grafarvogi verður lokað í vetur. Þar með fækkar leikskólum í hverfinu úr 11 í 10. Ástæðan er sú að leikskólabörnum í hverfinu hefur fækkað svo mikið á undanförnum árum að ekki þótti forsvaranlegt að halda leikskólanum opnum. Í dag eru 920 börn á leikskólaaldri í Grafarvogi, en fyrir tíu árum voru þau 1.164. Fækkunin nemur 21 prósenti.

„Maður er auðvitað ekkert sáttur. Maður vill hafa góða leikskólann sinn áfram,“ segir Ásta Kristín Svavarsdóttir leikskólastjóri í samtali við Fréttablaðið. Hún segir ekki alla starfsmenn leikskólans vera komna með störf annars staðar. „En það er allt í farvegi og verið að aðstoða okkur við að finna það,“ segir hún. Hún segir ekki endanlega vera búið að ákveða hvaða dag leikskólanum verði lokað. Það sé þó ljóst að það verði gert fyrir áramót.

Foreldraráð Sjónarhóls gagnrýnir að skóla- og frístundasvið skyldi ekki hafa meira samráð við foreldra í aðdraganda að breytingunum og gagnrýnir að leikskólanum sé lokað. Í bréfi sem þær Auður Aðalbjarnadóttir og Anna Björk Bjarnadóttir, fyrir hönd foreldraráðs Sjónarhóls, sendu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs segir að fara hefði mátt aðrar leiðir en að loka leikskólanum. Þar segir meðal annars að sameining Sjónarhóls og leikskólans Brekkuborgar hafi ekki verið rædd til fulls. Sameining leikskólanna yrði mun mildari aðgerð.

Slík sameining gæfi börnunum möguleika á að að vera áfram saman á leikskóla og vinna áfram með því starfsfólki sem það þekkir og treystir. Vill foreldraráðið að gerð verði úttekt á starfi leikskólanna og hverjir samlegðarþættir við sameiningu þeirra gætu orðið.

Þá segir í umsögn foreldraráðs að mikill aukakostnaður og umstang muni leggjast á foreldra, verði þessi tillaga samþykkt óbreytt. Aðlögun barna í leikskólum krefjist þess að foreldrar séu viðstaddir í leikskólanum í að minnsta kosti þrjá vinnudaga með barni sínu á leikskóla.

Skipulagning sumarfrísdaga foreldra sé löngu lokið og fáir hafi kost á öðru en að taka sér launalaust leyfi. „Þurfi foreldrar að taka sér launalaust leyfi þessa þrjá daga er launatap sem fellur á foreldra um 14% af mánaðartekjum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×