Innlent

Haustlægðirnar koma í hrönnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Von er á hvassviðri og rigningu næstu daga.
Von er á hvassviðri og rigningu næstu daga. Vísir/Pjetur
„Það verður bæði vindasamt og vætusamt“, segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands en Íslendingar geta farið að búa sig undir haustlægðirnar. Þær koma nefnilega í vikunni, sú fyrsta á morgun.

Búist er við hvassviðri og talsverðri úrkomu allt frá sunnanverðum Vestfjörðum að Ölfusi. Hvassast verður vestanlands, 13-20 metrar á sekúndu, sérstaklega undir fjöllum, en úrkomumest verður sunnan- og vestanlands. Það er því eins gott að taka vetrarfötin úr geymslunni, í það minnsta fyrir þá sem búa á þessu svæði, allur er varinn góður fyrir aðra. Sunnanátt verður ríkjandi og því munu íbúar Norður- og Austurlands njóta ákveðinnar veðurblíðu en mjög gott veður var til að mynda á Seyðisfirði í dag er hitinn náði 24 stigum. Það mun þó kólna þar eftir helgi þegar vindátt snýr til norðausturs.

Það er skammt stórra högga á milli því aðfararnótt fimmtudags skellur önnur lægð á suð-Austurlandið. Verður hún afar keimlík þeirri sem skellur á á morgun, 13-20 metrar á sekúndu og talsverð úrkoma. Varað er við vatnavöxtum í ám og eru ferðalangar beðnir um að athuga veðuraðstæður vel áður en lagt er af stað í ferðalag.

Búist er við því að lægðirnar skelli á okkur í hrönnum næstu vikurnar og því ættu trampólínin kannski að fá hvíld fram á næsta sumar auk þess sem að gagnlegt gæti verið að huga að grillum og öðrum lausamunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×