Innlent

Vilja hjálpa flóttamönnum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Höfn í Hornafirði
Höfn í Hornafirði Vísir/Pjetur
„Við viljum kanna alla möguleika, hvernig við getum komið að þessu,“ segir Lovísa Rósa Bjarnadóttir, varaformaður bæjarráðs sveitarfélagsins Hornafjarðar, en bæjarráð samþykkti í vikunni að það kæmi í hlut félagsmálastjóra sveitarfélagsins að vera í sambandi við velferðarráðuneytið um hvernig Hornafjörður geti hjálpað og mögulega tekið á móti flóttamönnum.

„Það er reyndar húsnæðisskortur á Hornafirði eins er. Ef það er eitthvað sem við getum gert fyrir flóttamenn og fáum mögulega eitthvað frá ríkinu á móti, til dæmis til að geta byggt, er þetta möguleiki,“ segir Lovísa.

Sveitarfélagið tekur málið alvarlega en það er enn á frumstigi og hefur bæjarráð ekki velt fyrir sér hversu mörgum hægt væri að taka á móti enn. Málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi eftir áskorun ungmennaráðs Hornafjarðar en Lovísa segir það einnig hafa verið rætt á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.

„Nú þarf Hornafjörður að koma saman sem öflugt samfélag og sýna hvað við getum gert fyrir þá sem þurfa á okkar hjálp að halda,“ segir í áskorun ungmennaráðsins. Vonar ráðið því að allir Hornfirðingar, ungir sem aldnir, séu tilbúnir að taka höndum saman til þess að hægt sé að bjarga þessum mannslífum.“

Lovísa segir Hornafjörð áður hafa tekið á móti flóttamönnum.

„Árið 1997 tókum við á móti fjölskyldum frá Júgóslavíu. Við höfum reynslu af þessu þannig að við getum nýtt hana,“ segir Lovísa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×