Innlent

Slökkviliðsmenn andvígir skýjaluktum

Gissur Sigurðsson skrifar
vísir/epa
Óljóst er hvort ný lög um meðferð elds ná til svo nefndra skýjalukta. Ein slík hleypti af stað töluverðri aðgerð björgunaraðila í gærkvöldi þar sem ljós frá henni kynni að vera neyðarblys frá skipi. Slökkviliðsmenn vilja láta banna luktirnar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og tveir björgunarbátar frá Landsbjörg voru kölluð út rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi eftir að þrjár tilkynningar bárust um að neyðarblys sæist á lofti yfir Seltjarnarnesi.

Lögreglan tók líka þátt í eftirgrennslan sem stóð fram yfir miðnætti, að loks kom í ljós að þetta var svonefnd skýjalukt. Þetta hefur gerst áður og ekki eru mörg ár síðan slík lukt kveikti í þaki verslunarmiðstöðvar á Bretlandseyjum og olli miklu tjóni. Í nýsamþykktum lðgum um meðferð elds er ekki beinlínis tekið á þessum ljósum og því í rauninni óljóst hvort notkun þeirra er heimil eða ekki,en slökkviliðsmenn eru þeim andvígir, að sögn Bjarna Kjartanssonar, sviðsstjóra í forvarnadeild slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

„Slökkviliðið er mjög neikvætt gagnvart þessum ljósum, af ýmsum ástæðum. Þetta er jú logandi eldur sem eðiliegt er nú að sé undir einhverri stjórn. Þetta er logandi ljós sem bara flýgur einhvers staðar um og lendir bara þar sem því sýnist, það kann nú ekki góðri lukku að stýra, eins og fjölmörg dæmi sýna erlendis,“ segir Bjarni.

Viljið þið láta banna ljósin?

„Það er nú kannski matsatriði en allavega væri það mjög eðlilegt að það væru skýrar reglur og takmarkanir á hvernig megi nota þetta vegna þess að erlendis hafa orðið fjölmargir húsbrunar og gróðureldar sem rekja má til þessara ljósa,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Neyðarblys var í raun skýjalukt

Þyrla Landhelgisgæslunnar og tveir björgunarbátar frá Landsbjörg voru kölluð út rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi eftir að þrjár tilkynningar bárust um að neyðarblys sæist á lofti yfir Seltjarnarnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×