Innlent

Æskuvinirnir hlaupa fyrir Tönju Kolbrúnu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ragnheiður og Andri eru hluti af hópi sem ætlar að hlaupa fyrir hina þriggja ára Tönju Kolbrúnu.
Ragnheiður og Andri eru hluti af hópi sem ætlar að hlaupa fyrir hina þriggja ára Tönju Kolbrúnu. Vísir/Úr einkasafni
Stór hluti vinahóps Fannars Geirs Ólafssonar og Rakelar Hannibalsdóttur ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar dóttur þeirra sem greindist með hvítblæði í mars á þessu ári. Hún heitir Tanja Kolbrún og er aðeins þriggja ára gömul.

„Þetta er löng meðferð, um það bil tvö til þrjú ár og hún er náttúrulega mjög dýr,“ segir Andri Kristjánsson, einn þeirra sem hyggst hlaupa til styrktar Tönju.

„En við viljum líka sýna stuðning með þessu á annan hátt, ekki bara fjárhagslegan heldur líka andlegan.“ Andri ætlar að hlaupa með kærustunni sinni Ragnheiði Vignisdóttur og saman hlaupa þau heilt maraþon eða 21 kílómetra hvort.

„Við erum þó nokkuð mörg úr vinahópnum sem ætlum að hlaupa fyrir hana,“ segir Andri. Vinahópur Fannars og Rakelar er frá Selfossi og hefur þekkst síðan á grunnskólaaldri.

Erfitt að fá fregnir um veikindi barnsins síns

Andri segir alla jákvæða og bjartsýna á að Tanja nái bata. „Það sýna allir sínar bestu hliðar en auðvitað er þetta bara erfitt að lenda í svona aðstæðum.“

Sjá einnig: Slappleiki þriggja ára stúlku reyndist hvítblæði

Tanja er yngsta dóttir parsins en saman eiga þau þrjú börn. Átta vinir þeirra hófu söfnun fyrir lyfjameðferð stúlkunnar og stofnsettu Styrktarsjóð Tönju Kolbrúnar sem þau Andri og Ragnheiður hlaupa fyrir nú. Þá var söfnunin í formi opinna æfinga í KraftBrennzlunni á Selfossi en nú hefur söfnunin færst yfir í hlaupin. Níu ætla að hlaupa fyrir Tönju þegar þetta er skrifað en það eru auk Andra og Ragnheiðar þau Gústaf Lilliendahl, Alexander Jensen, Unnur Marín, Kolbrún Guðmunda, Lárus Jón Björnsson, Tinna María og Sólveig Hrönn.

Foreldrar Tönju voru snortin eftir þann stuðning og hlýhug sem þau fundu í kjölfar þess að styrktarsjóðurinn var stofnsettur að sögn Andra. Fannar „Þetta eru auðvitað mikil viðbrigði fyrir hana, þrátt fyrir að hún geri sér ekki alveg grein fyrir þessu, enda bara þriggja ára. En hún er mjög hress og sterk stelpa og hefur alltaf verið. Við vitum að þetta verður erfitt, hún má ekki fara í leikskóla og getur ekki verið mikið meðal almennings, því ónæmiskerfið höndlar það ekki.“

Hér er hægt að styrkja þau Ragnheiði og Andra. Hér má sjá upplýsingar um alla þá sem ætla að hlaupa fyrir Tönju Kolbrúnu.

Leiðrétting:

Í fyrri fyrirsögn fréttarinnar var tekið fram að hlaupið væri fyrir lyfjameðferð Tönju Kolbrúnar. Lyfjameðferðin sjálf er niðurgreidd af ríkinu og því fara fjármunirnir sem safnast ekki í hana beint heldur í kostnað sem fylgir meðferðinni og til þess að styðja við fjölskylduna fjárhagslega að öðru leyti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×