Innlent

Konum í krabbameinsmeðferð mismunað eftir þyngd

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ragnheiður Davíðsdóttir er framkvæmdastjóri Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk í krabbameinsmeðferð.
Ragnheiður Davíðsdóttir er framkvæmdastjóri Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk í krabbameinsmeðferð. Vísir/GVA
Kraftur stuðningsfélag fyrir ungt fólk í krabbameinsmeðferð gagnrýnir það að konum sé mismunað eftir þyngd þegar kemur að lyfjameðferð við krabbameini. Orsökin er samkvæmt Krafti einungis sparnaður í heilbrigðiskerfinu. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun, viðtalið má heyra hér að ofan.

Sigurlín Ívarsdóttir, önnur kvennanna í Bítinu í morgun, byrjaði í krabbameinsmeðferð í byrjun desember vegna brjóstakrabbameins. Lyfjameðferðin er þannig að hún fær lyf í æð í heilt ár á þriggja vikna fresti.

„Í mínu tilviki þarf ég að fá það í æð allan tímann af því að ég er undir sjötíu kílóum,“ útskýrir Sigurlín. „Þær konur sem eru yfir sjötíu kílóum geta fengið það undir húð, stungulyf.“

Sparnaður í kerfinu ástæða mismununar

Mun styttri tíma tekur að fá lyf undir húð eða rétt um nokkrar mínútur að því er kemur fram í viðtalinu. Hins vegar tekur lyfjameðferð með svokölluðum innrennslilyfjum, meðferð Sigurlínar, mun lengri tíma.

„Það tekur bara fimm mínútur að fá þetta stungulyf,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, sem kom ásamt Sigurlín í viðtalið.

Ólíkar meðferðir er við mismunandi tegundum af krabbameini.vísir/getty
„Til að spara í kerfinu láta þeir konur sem eru léttari en sjötíu kíló liggja í klukkustund og allt upp í einn og hálfan tíma á spítala á þriggja vikna fresti á meðan hinar sem eru þyngri fá að stökkva inn í fimm mínútur fá þetta undir húð og svo farnar,“ segir Ragnheiður. Þetta er af þeim sökum að meira magn af innrennslilyfinu þarf eftir því sem manneskja er þyngri að sögn Ragnheiðar, það er því ódýrara að láta konur yfir sjötíu kílóum fá stungulyfið en það virkar jafn vel á þyngri sem léttari konur.

Þetta er því eitt dæmi um að verið sé að leita leiða til sparnaðar á spítalanum?

„Já,“ svarar Ragnheiður afdráttarlaus.

Myndi kjósa hina meðferðina en fær ekki

„Þetta er mismunun,“ segir Sigurlín. „Ég myndi gjarnan vilja koma þarna inn og bæði fá að vera styttri tíma og eins þá er mikill munur á því að gefa lyf í gegnum æð og stinga því undir húð.“ Það er ekki bara tíminn sem um ræðir heldur er heilmikið umstang í kringum lyfjagjöf í gegnum æð líkt og Sigurlín lýsir í viðtalinu.

„Það þarf að stinga í æðarnar, setja upp nálar og svoleiðis. Ég fæ reyndar lyfið í kringum lyfjabrunn en það þýðir að ég kem þarna inn og það þarf heill hjúkrunarfræðingur að vera yfir mér. Ég þarf að taka upp stól, það þarf að setja vökva í æð og hreinsa lyfjabrunninn, svo kemur lyfið, það er látið renna í þrjátíu til fjörtíu mínútur, svo þarf að hreinsa aftur, gefa mér saltvatn, plastra þetta og svoleiðis.“

Krabbameinsmeðferðir fara fram á Landspítalanum. Vísir/GVA
Hún segist hafa efast um að þetta spari nokkuð miðað við umgjörðina í kringum lyfjagjöf í gegnum æð. Einnig bendir hún á að kostnaðurinn fyrir samfélagið sé meiri, hún þarf að vera lengur frá vinnu og heimili en þyngri konur.

Má ekki þyngja sig

Ragnheiður segir lyfjafyrirtæki hafa gert rannsókn á sparnaðinum. „Ég held að þetta skipti einhverjum nokkur hundruð þúsund krónum.“ Hún bendir jafnframt á þau óþægindi sem fylgja því að vera með lyfjabrunn; sýkingar og annað.

Um 10 - 11 prósent kvenna eru með sömu tegund af krabbameini og Sigurlín og því veltir hún því fyrir sér hvort sparnaðurinn geti verið svo mikill þegar allt bendir til þess að um fremur fáar konur sé að ræða.

Sigurlín hefur velt því upp við lækninn sinn hvort hún ætti ekki einfaldlega að þyngja sig um nokkur kíló svo hún geti sloppið við meðferðina sem er tímafrekari og meira vesen en læknirinn hennar mælir eindregið gegn því. Þetta er meðal annars vegna þess að hluti af meðferð hennar er andhormónameðferð. „Það eru skýr skilaboð að þyngjast ekki og halda sér í kjörþyngd í þeirri meðferð, stunda hreyfingu og borða hollan mat, því einn af stóru áhættuþáttunum í þeirri meðferð er til dæmis blóðtappi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×