Innlent

Íslendingur bjargaði 16 ára stúlku frá drukknun í Bretlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Georgia Wiggans og Ingólfur Eyrfeld Guðjónsson.
Georgia Wiggans og Ingólfur Eyrfeld Guðjónsson. Vísir/ITV
Ef ekki hefði verið fyrir Ingólf Eyrfeld Guðjónsson þá væri hin sextán ára gamla Georgia Wiggans ekki á lífi. Svona er atvikum lýst á vef ITV þar sem greint er frá björgun Wiggans úr sjónum við borgina Heysham á Englandi á mánudag.

ITV birti myndband af því þegar Wiggans þakkaði Ingólfi Eyrfeld fyrir björgunina. „Ég er frekar hrærð því hann bjargaði lífi mínu. Ég er bara glöð að hann og ég erum í lagi,“ er haft eftir Wiggans.

Ingólfur þakkar slysavarnarnámskeiðum þessa björgun. „Þjálfunin kom upp í hugann þegar maður var í þessum aðstæðum og þá er maður betur búinn undir það.“

Atvikið átti sér stað þegar Wiggans og vinkona hennar gengu eftir Middleton-söndum nærri Heysham.  Þær höfðu verið að leika sér í fjöruborðinu þegar alda  hrifsaði þær út á haf. Vinkona hennar náði að synda í land en Wiggans var ekki svo lánsöm.  Það voru farþegar á ferju sem komu auga á Wiggans meðvitundarlausa í sjónum og átti Ingólfur leið fram hjá á litlum hraðbát þegar hann sá stúlkuna.

„Þegar við nálguðumst hana komst hún allt í einu til meðvitundar og kallaði á hjálp og horfði djúpt í augun mín og sagðist ekki vera synd. Ég myndi segja að hún sé afar lánsöm stúlka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×