Innlent

Reyna að bjarga hval sem er flæktur

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérfræðingateymi á vegum Alþjóðahvalveiðiráðsins er nú statt hér á landi. Verkefni þeirra er að framkvæma björgunaraðgerð vegna hnúfubaks sem er flæktur í grásleppunet eða annars konar fíngert net. Margsinnis hefur sést til hvalsins í hvalaskoðunarferðum í Faxaflóa.

Vonast er til þess að hægt verði að skera á netin og losa sem mest af hvalnum. Svo hann gæti losað sig af sjálfsdáðum við það sem eftir verður.

Hvalurinn virðist vera flæktur í grásleppunet eða annars konar fíngert net.Mynd/Guðlaugur Ottesen Karlsson
Í tilkynningu frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands segir að hvalaskoðunarfyrirtækin Elding, Special Tours og Whale Safari standa að aðgerðinni í samstarfi við sérfræðingana sem koma frá samtökunum IFAW (the International Fund for Animal Welfare) og BDMLR (the British Diving Marine & Life Rescue). Teymið er með ýmsan búnað meðferðis sem notaður hefur verið við svipaðar aðstæður annars staðar í heiminum.

Landhelgisgæslan reyndi í síðustu viku að skera hvalinn lausan og náðist að skera á hluta netsins nálægt sporði dýrsins.

Djúpt sár hefur myndast neðan við sporð hvalsins.Mynd/Guðlaugur Ottesen Karlsson
Í tilkynningunni segir einnig að hvalurinn hafi líklega flækst fyrir nokkrum vikum og að stórt sár hafi myndast neðan við sporðinn. Þar hafi girni grafið sig djúpt inn í holdið. „Ljóst er að einn erfiðasti hluti aðgerðarinnar verður að losa um netið á því svæði.“

„Ljóst er að aðgerðin er erfið og brugðið getur til beggja vona. Allir sem að aðgerðinni koma eru þó sammála um að annað komi ekki til greina en að grípa til aðgerða og gera það sem hægt er til að lina þjáningar hvalsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×