Innlent

Guðlaugur Þór um opinbera forstöðumenn: „Illa snertanlegir“

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, kallaði eftir því að ríkisstofnanir nýti kosti útboða í auknum mæli. Þetta sagði Guðlaugur Þór í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagði hægt að spaða milljarða í ríkisrekstrinum ef þessar stofnanir myndu bjóða einstaka liði út.

Nefndi hann sem dæmi síma, rafmagn og tölvuþjónustu ásamt öðru og sagði þessar stofnanir hafa engar afsakanir fyrir að bjóða slíka þjónustu ekki út. Ef þær telja sig of litlar fyrir útboð ættu þær að fara í sameiginlegt útboð með öðrum stofnunum.

Hann sagði fjárlaganefnd fylgjast vel með og senda fyrirspurnir á stofnanir hvers vegna þær hafa ekki boðið einstaka liði út. Hann sagði að ekki væri vöntun á forstöðumönnum opinberra stofnana sem kvarta undan því í fjölmiðlum að fá lítið fjármagn til rekstursins en nýta engu að síður ekki kosti útboðs sem gætu aukið ráðstöfunarfé þeirra.

Hann segir fjárlaganefnd þurfa að reiða sig á opinberar eftirlitsstofnanir þegar kemur að því að fylgjast vel með rekstri opinberra stofnana og þá hvatti hann fjölmiðla til dáða við fylgjast með því hvort ekki væri farið eftir settum reglum þegar kemur að útboðum ríkisins.

Hann var spurður hvort það hefði einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir forstöðumenn opinberra stofnana ef þær færu fram úr fjárlögum. „Þeir eru mjög illa snertanlegir,“ sagði Guðlaugur Þór en sagði að til væri í dæminu að náðst hefði samkomulag við forstöðumenn að láta af störfum ef slíkt gerðist ítrekað. Það væri þó öðruvísi farið í löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við.

„Ef viðkomandi stofnun stendur ekki fjárlög þá víkur forstöðumaðurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×