Fótbolti

Helsingborg reynir að losna við Arnór

Arnar Björnsson skrifar
Arnór í búningi Helsingborg.
Arnór í búningi Helsingborg.
Arnór Smárason heldur áfram að skora fyrir Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni þótt félagið vilji losna við hann.  Arnór á tvö ár eftir af samingi við Helsingborg en félagið glímir við mikla fjárhagserfiðleika.  

Í Aftonblaðinu sænska segir að Arnór sé einn launahæsti leikmaður liðsins sem freistar þess að koma honum af launaskránni. Helsingborg tókst að losna við hann af launaskrá í nokkra mánuði fyrr á þessu ári þegar hann var lánaður til Torpedo í Moskvu.  

Arnór snéri aftur og þrátt fyrir að vera á varamannabekknum heldur hann áfram að skora.  Í gær kom hann inná á 64. mínútu og stundarfjórðungi síðar skoraði hann seinna markið í 2-0 sigri. Liðið er í sjöunda sæti, 11 stigum á eftir Gautaborg og Elfsborg sem eru á toppnum.  

Þjálfari Helsingborg, Henrik Larsson, neitaði að svara spurningum blaðamanna eftir leikinn um framtíð Arnórs en hældi honum fyrir frammistöðuna í gær.  

Arnór segist í samtali við Aftonblaðið ekki vita hvort hann spilar mikið meira fyrir Helsingborg.  „Það eina sem ég hugsa um er að sýna hvað ég get á vellinum og sanna að ég eigi heima í byrjunarliðinu." 

Vegna fjárhagsvandræða félagsins er líklegt að Helsingborg reyni að selja eða lána Arnór áður félagaskiptaglugganum lokar 1. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×