Fótbolti

Viðar og Sölvi á skotskónum í kínverska bikarnum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sölvi í leik með Ural í rússnesku úrvalsdeildinni á sínum tíma.
Sölvi í leik með Ural í rússnesku úrvalsdeildinni á sínum tíma. Vísir/Getty
Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartansson voru á skotskónum í 3-1 sigri Jiangsu Guoxin-Sainty á Xinjiang Tianshan í átta liða úrslitum kínverska bikarsins í dag.

Leikið var á Xinjiang vellinum í Xinjiang en félagið er í næst efstu deild kínversku deildarkeppninnar.

Komu mörk Sölva og Viðars með aðeins fimm mínútna millibili í fyrri hálfleik en stuttu síðar bætti Ren Hang við þriðja marki Jiangsu.

Heimamenn í Xinjiang minnkuðu muninn stuttu fyrir hálfleik en lengra komust þeir ekki og komst Jiangsu því í undanúrslit kínverska bikarsins.

Mæta Viðar, Sölvi og félagar Shandong Luneng Taishan í næstu umferð en tveir leikir verða leikir, sá fyrri þann 30. september í Shandong og sá seinni á heimavelli Sölva og Viðars 21. október næstkomandi.

Er þetta í þriðja sinn sem íslensku leikmennirnir eru báðir á skotskónum í sama leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×