Innlent

Bruninn í Laugalækjarskóla: Ljóst að um íkveikju var að ræða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eldurinn kviknaði í torfþaki skólans.
Eldurinn kviknaði í torfþaki skólans. Mynd af heimasíðu Reykjavíkurborgar
Upplýsingaver, tölvuver, bókakostur og fleira verður ekki til reiðu fyrir nemendur Laugalækjarskóla fyrr en um miðjan september sökum brunans seint í gærkvöldi. Kennari við skólann segir ljóst að um íkveikju var að ræða. Skólastjóri segir tjónið hlaupa á milljónum.

Vísir greindi frá því snemma í morgun að kviknað hefði í torfþaki skólans um miðnætti í gærkvöldi. Slökkviliði bárust tilkynningar frá öryggisfyrirtæki og vegfaranda. Þegar komið var á vettvang hafði eldurinn brætt fjóra þakglugga úr plasti og komist inn í skólann.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn og í kjölfarið var reykræst og gengið frá. Linda Hreiðarsdóttir, kennari við Laugalækjarskóla, greinir íbúum í hverfinu frá því í hópnum Laugarneshverfi á Facebook að tjónið sé gífurlegt.

„Ljóst er að um íkveikju er að ræða og er nauðsynlegt að fá allar upplýsingar fram er málið varðar,“ skrifar Linda og kallar eftir upplýsingum um þá sem kunna að hafa vitneskju um ferðir eða umgang í kringum skólann seint í gærkvöldi.

Björn M. Björgvinsson, skólastjóri í Laugalækjarskóla, sagði við Mbl.is síðdegis að tjónið hlypi á milljónum.

„Sennilega hafa einhverjir unglingar verið að reykja á þakinu, ég get ímyndað mér það,“ sagði Björn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×