Innlent

Sá bílinn koma fljúgandi: „Ég hélt að þetta væri mitt síðasta“

Bjarki Ármannsson skrifar
Að sögn Péturs fór bíllinn eina veltu áður en hann nam staðar á stígnum
Að sögn Péturs fór bíllinn eina veltu áður en hann nam staðar á stígnum Mynd/Pétur Halldórsson
„Ég hélt að þetta væri mitt síðasta,“ segir Pétur Halldórsson, fyrrverandi útvarpsmaður, sem varð vitni að bílveltu á Miðhúsabraut á Akureyri fyrr í kvöld. Ökumaður bílsins lenti þá utan vegar og á stígnum þar sem Pétur var á leið heim úr vinnu.

„Ég var að hjóla upp stíginn og þá kemur bara bíll allt í einu fljúgandi,“ segir Pétur. „Ég sé hann alveg beran við himinn og stefna beint á mig.“

Vegriðið sem sést á meðfylgjandi myndum endar ofar í brekkunni og að sögn Péturs fór bíllinn beint á vegriðið og virkaði það sem nokkurs konar stökkpallur.

„Bíllinn stekkur beint upp í loftið og lendir svona tíu metrum neðar aftur á vegriðinu,“ segir hann. „Þaðan skoppar hann á þennan stall sem er þarna milli götunnar og stígsins. Þá verð ég bara að láta mig hverfa í skóginn sem er þarna fyrir neðan.“

Lögregla á slysstað.Mynd/Pétur Halldórsson
Brekkan fyrir neðan stíginn er brött og skógi vaxin.

„Ég bara ákvað að reyna að bjarga lífinu með því að henda mér þarna fram af,“ segir Pétur léttur. „Bíllinn hefði samt sennilega ekki farið á mig. Maður sér það bara á þakinu að hann hefur farið eina veltu, en ég sá það ekki. Þá var ég farinn.“

Pétur segir trén hafa tekið af sér fallið að mestu og hann sloppið að mestu ómeiddur. Eftir veltuna nam bíllinn staðar á dekkjunum og aðrir ökumenn og vegfarendur fóru að gá að ökumanninum. Sá reyndist vera ung kona sem viðurkenndi að sögn Péturs að hún hefði verið að skoða síma sinn við akstur.

„Hún hreyfir sig ekki mikið og var frekar stjörf,“ segir Pétur. „Svo opnar einhver hurðina, hún kemur út og brotnar bara saman. Eins og eðlilegt er.“

Pétur segist ánægður að ekki hafi farið verr en reiðastur yfir því hve algeng símanotkun við akstur virðist vera.

„Bara það að tala í símann hefur veruleg áhrif á athyglina,“ segir hann. „Þá talar maður ekki um ef verið er að senda SMS eða svara Facebook-skilaboðum. Þá er fólk bara alveg farið úr bílnum.“

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsi Akureyrar var konan ekki alvarlega slösuð eftir bílveltuna.

Þegar ég hjólaði í vinnuna í dag sá ég unga stúlku koma akandi bíl á talsverðri ferð. Þar sem hún skaust fram hjá mér sá...

Posted by Pétur Halldórsson on 13. júlí 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×