Innlent

Slasaður ferðalangur á Vestfjörðum: „Hefði getað haldið áfram á feti“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Rauða merkið sýnir um það bil hvar tófan hljóp upp og fældi hrossið.
Rauða merkið sýnir um það bil hvar tófan hljóp upp og fældi hrossið. loftmynd/map.is
„Ég hef það bæði skítt og gott svona miðað við allt. Ég er nokkuð ókvalinn og get haltrað um svona innan skekkjumarka,“ segir Þórður Halldórsson. Þórður slasaðist í gær í reiðtúr skammt frá Skipeyri í Hrafnfirði á Hornströndum. 

Þórður var á ferð í tíu manna hópi en reiðtúrinn sem hann var í tekur alls níu daga séu komu og brottfarardagur tekinn með í dæmið. Riðið er í kringum Drangjökul, gist í tjöldum og gengið á fjöll sem verða á vegi ferðalanga.

„Við vorum að ríða þarna inn og það varð tófa á vegi okkar. Í upphafi virðist hún hafa ætlað að liggja okkur af sér en síðan guggnaði hún á því og spratt upp. Hrossinu brá við það og stökk til hliðar.“



Björgunarbáturinn Gísli Hjalta, hér til hægri, fór til aðstoðar manninum.vísir
Hefði getað ráðið við fetið

Vikuna fyrir ferðina hafði Þórður tognað í hægri fæti og var því ekki alveg hundrað prósent í ferðinni. „Ég kreppti fótinn ósjálfrátt, það kom högg á vöðvann en ég beit það í mig að halda áfram. Þegar við komum upp á Skorarheiðina þurfti að járna hross og ég var hálfþróttlaus og þurfti að hvíla mig á milli hóffjaðra.“

Þórður er vanur hestaferðunum en í rúma tvo áratugi hefur hann riðið þessa leið með fólki sem vill fara hana. Ferðirnar eru farnar tvisvar til þrisvar sinnum á hverju sumri. Hann segir að með í för hafi verið manneskja sem hafi bent honum á að ekkert vit væri í því að halda áfram. Lærvöðvinn væri nokkuð stór og gæti rúmað heilmikið af blóði.

„Ég hefði ábyggilega getað haldið áfram á rólegu feti en við vorum að komast á stað þar sem hrossin hefðu tekið sprettinn. Við hrossið áttum einfaldlega ekki samleið lengur og því var afráðið að koma mér undir læknishendur.“

Í upphafi stóð til að þyrla Landhelgisgæslunnar myndi sækja Þórð en sökum þoku var hætt við það. Þess í stað kom gönguhópur og sótti hann en þeir komu á staðinn með björgunarskipunum Gísla Hjalta og Helga Páls.

„Við komum á Ísafjörð um þrjúleitið í nótt. Þetta er sennilega slitinn vöðvi aftan á lærinu eða í það minnsta trosnaður. Sem stendur ræð ég við að ganga en á erfitt með óvæntar, snöggar hreyfingar. Fólkinu sem hafði fyrir því að ná í mig og koma mér til byggða vil ég þakka sérstaklega fyrir björgunina,“ segir Þórður að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×