Innlent

Verðhækkanir eftir nýja kjarasamninga

Linda Blöndal skrifar
Nýlegar verðhækkanir á mat og nauðsynjavörum ógna nýjum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, segir Sigurður Bessason, varaformaður ASÍ og formaður Eflingar stéttarfélags en fyrirvarar eru í samningunum um að verðhækkanir verði hóflegar. Vísbendingar eru um hið gagnstæða segir Sigurður.  



Margskonar matvara hækkar

Samkvæmt Neytendasamtökunum hafa 17 birgjar hækkað verð síðan 20.júní vegna nýgerðra kjarasaminga og sum staðar hækkað áður en samningar voru frágengnir. Verðið rís um tvö til fimmtán prósent eftir vöruflokkum. Þetta er og kjöt, grænmeti, brauð og hreinlætisvörur – og gos og sælgæti. Íslenskar kjötvinnslur hækka nautakjöt um tvö prósent, grísakjöt tvö og hálft prósent og lambakjöt um þrjú prósent.

Neytendasamtökin birtir lista í 24 liðum yfir hækkanirnar sem tóku gildi frá 1.maí síðastliðnum og þar sem fleiri hækkanir eru boðaðar. Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum við Samtök atvinnulífsins voru gerðir í lok maí og fyrst var greitt eftir þeim 1.júlí. 



Úthald nauðsynlegt

„Kjarasamningarnir eru til þriggja ára og þeim er ætlað að skapa stöðugleika. Menn þurfa að hafa úthald og ekki gleyma því að síðastliði ár bjuggum við við gríðarlega lága verðbólgu, áður óþekktri tölu, fórum niður í eitt prósent", sagði Sigurður í fréttum Stöðvar 2.  „Fyrirtæki hafa klárlega átt að hafa ákveðna burði til þess að fara inn í þessa kjarasamninga og leggja sitt af mörkum svo þessir samningar haldi", sagði Sigurður.  

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ítrekar fyrri orð sín í dag í Fréttablaðinu um að nýlegir samningar kveði á um launahækkanir sem fari út fyrir það svigrúm sem vinnuveitendur hafi og vonar að þeir hagræði eins mikið og hægt er í stað þess að hækka verð sem valdi verðbólgu. 



Fleira en launaliðurinn 

Hækkunin er líka rakin til hærra innkaupaverðs erlendis frá og orkuverðs en launaliðurinn er þó oftast nefndur í skýringum fyrirtækjanna sjálfra sem Neytendasamtökin hafa fengið sendar.

„Ég tel að skilaboðin sem að menn séu að senda út byggi einfaldlega á röngum forsendum. Þarna er bara ákveðin græðgi í gangi. Ég tel að menn séu hér að velta inn í verðlagið hækkunum sem eigi ekki grunn í kjarasamningunum", segir Sigurður en enn fremur muni hann fagna  niðurfellingu allra tolla nema á matvöru, líkt og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefur boðað frá næstu áramótum.

Siguður segist þó setja varann á þar sem nýleg niðurfelling sykurskatts hafi skilað sér til sinna skjólstæðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×