Innlent

Íbúum Hlíðarhjalla tjáð hvar maðurinn er niðurkominn

Bjarki Ármannsson skrifar
Enn liggur ekki fyrir hvort skotið hafi verið úr byssu í Hlíðarhjalla í gær.
Enn liggur ekki fyrir hvort skotið hafi verið úr byssu í Hlíðarhjalla í gær. Vísir/Vilhelm
Íbúum fjölbýlishússins við Hlíðarhjalla 53 hefur verið tilkynnt hvar eigandi íbúðarinnar sem setið var um í sex tíma í gær er niðurkominn. Enn liggur ekki fyrir hvort hvellirnir sem heyrðust við íbúðina í gær hafi verið skothvellir en lögregla mætti á svæðið á mánudag eftir að högl fundust í garðinum um helgina.

Telja botn kominn í málið

Sem kunnugt er, reyndist íbúðin mannlaus þegar lögregla fór inn í hana seint í gær. Þá hafði verið uppi grunur um að maður væri þar vopnaður haglabyssu. Lögregla náði tali af eiganda íbúðarinnar í gær en hefur ekki viljað greina frá því opinberlega hvar maðurinn er staddur.

Þeir íbúar hússins sem fréttastofa hefur rætt við í dag segjast nokkuð rólegir yfir málinu og telja að botn sé kominn í það, þrátt fyrir að enginn sé í haldi lögreglu vegna málsins.

„Við upplifum það þannig,“ segir Helga Þóra Jónsdóttir, formaður húsfélagsins. „Það er öllum brugðið eftir gærdaginn en svo er bara léttir að þetta var ekki neitt.“

Frá vettvangi í gær.Vísir/Vilhelm
Skot í garði og í bíl

Á laugardag fundust við vorhreingerningar högl í garðinum við fjölbýlishúsið og ummerki um haglaskot í girðingu. Íbúar tilkynntu lögreglu strax um málið og hún mætti á vettvang á mánudeginum. Þá hefur Vísir einnig greint frá því að þann 9. apríl síðastliðinn var skotið á bíl úr haglabyssu á bílastæði við Hjallakirkju, sem er við hliðina á fjölbýlishúsinu.

Þegar svo var tilkynnt um hvelli í gær, mætti lögregla og sérsveit á staðinn, rýmdi húsið og sátu um íbúð mannsins mannsins. Helga segir lögreglu eiga skilið þakkir fyrir hvernig staðið var að aðgerðinni.

„Ég var úti og ég átti dóttur og barnabarn inni,“ segir hún. „Lögregla aðstoðaði þau út og passaði svo vel upp á að barnið yrði ekki hrætt. Þannig að það eru allir rólegir. Þetta fór mjög vel.“

Samkvæmt lögreglu hefur maðurinn ekki verið heima „að undanförnu“ en það útilokar þó ekki að hann hafi getað skotið höglunum sem fundust í garðinum, þar sem þau gætu verið margra vikna gömul.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×