Sport

HM í íshokkí á Íslandi - ókeypis á alla leiki nema þá með íslenska liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Heimsmeistaramót karla í A riðli 2. deildar í íshokkí hefst í dag í Skautahöllinni í Laugardal og stendur það til 19. apríl næstkomandi. Þátttökuþjóðir í 2. deildinni í ár eru Ísland, Rúmenía, Belgía, Serbía, Ástralía og Spánn.

Mótið hefst með viðureign Spánar og Ástralíu kl. 13:00 en á eftir honum spilar Serbía við Rúmeníu klukkan 16:30.

Síðasti leikur dagsins fer fram beint á eftir setningarathöfn mótsins sem hefst kl 19:45 en það er viðureign Íslands og Serbíu.

Það er ókeypis inn á þá leiki á mótinu sem leiknir eru klukkan 13.00 og 16.30 en íslenska liðið mun spila alla leiki sína klukkan 20.00.

Íslenskt karlalandslið hélt fyrst til keppni á heimsmeistaramóti árið 1999 en þessi mót eru árlegur viðburður.

Liðið hefur tekið þátt í öllum mótum sem haldin hafa verið síðan þá og hafa fjögur þeirra  verið haldin á Íslandi.

Fyrsta mótið í Reykjavík var haldið árið 2000 og það næsta árið 2004. Þriðja mótið var haldið árið 2006 og síðast var haldið mót hér á landi árið 2012.

Það mót sem nú fer í hönd er sterkasta íshokkí mót sem fram hefur farið á Íslandi. Fjögur af þeim liðum sem heimsækja okkur að þessu sinni hafa á einhverjum tímapunkti leikið í 1.deild en það eru Serbía, Rúmenía, Spánn og Ástralía.

Liðunum er raðað í riðilinn eftir styrkleika og er röðin eftirfarandi:

1. Rúmenía

2. Ísland

3. Serbía

4. Ástralía

5. Belgía

6. Spánn 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×