Innlent

Segir vanta 1,4 milljarða

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Landspítalinn.
Landspítalinn. Vísir/Vilhelm
„Við höfum áhyggjur því það er ljóst að við getum ekki tekið fé úr rekstri okkar til þess að bæta húsnæðið. Sjúklingarnir þurfa á þeim peningi að halda,“ segir María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 er gert ráð fyrir því að spítalinn fái sex hundruð milljónir í viðhald og nýframkvæmdir. Að sögn Maríu vantar þá 1.400 milljónir upp á fyrir nauðsynlegar framkvæmdir.

Margt þurfi að bæta. Til dæmis séu mjög mikil þrengsli víða á legudeildum. „Það þekkja svo allir dæmin um mygluna og lekann á spítalanum.“

María Heimisdóttir
Þá segir María mikla uppsafnaða þjónustuþörf. „Eitt af því sem er mjög brýnt að gera er að bæta við skurðstofu í Fossvoginn og er kostnaður við það metinn á um 100 milljónir.“

Einnig þarf að losa pláss fyrir sjúklinga með því að setja upp gámabyggingu fyrir skrifstofur í Fossvogi. Slíkt verkefni kostar 130 til 150 milljónir.

María vill minna á fjárframlög sem eru í frumvarpinu til nýs Landspítala við Hringbraut og segir það mjög mikilvægt skref. Þó sé nauðsynlegt að leggja ákveðinn kostnað í húsnæðið til að brúa bilið þar til nýr spítali kemst í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×