Innlent

Á launum á leið í vinnuna

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Halldór Grönvold
Halldór Grönvold
Launþegar, sem ekki eru með fasta starfsstöð, eiga að fá laun um leið og þeir ganga út um dyrnar heima hjá sér og þar til þeir eru komnir aftur heim að loknum vinnudegi samkvæmt nýjum dómi Evrópudómstólsins.

Á fréttavef norska miðilsins Dagens Næringsliv segir að dómurinn hafi í för með sér miklar breytingar fyrir til dæmis iðnaðarmenn, sölumenn, tölvuráðgjafa, ræstitækna og heilbrigðisstarfsmenn í heimahjúkrun sem ekki hafa fasta starfsstöð.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir dóminn túlkun á ákvæðum vinnutímatilskipunar Evrópusambandsins sem innleidd hefur verið hér. Tilskipunin fjalli ekki um launamál heldur hvíldartímareglur.

Halldór bendir á að málið fyrir Evrópudómstólnum hafi fjallað um virkan vinnutíma starfsmanna á Spáni sem setja upp öryggisbúnað en eru ekki með fasta starfsstöð. „Það kann að vera að þetta geti haft áhrif hér. Við getum tekið sem dæmi iðnaðarmann í byggingavinnu sem fer einn daginn í Grafarvog og næsta dag í Kópavog en er ekki með fasta starfsstöð. Ef menn eru með fasta starfsstöð hefur þetta engin áhrif."

Að sögn Halldórs kann úrskurður dómstólsins að hafa önnur og víðtækari áhrif þar sem kjarasamningar eru með öðrum hætti en hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×