Enski boltinn

Þorvaldur: Rodgers er í erfiðri stöðu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Það verður að taka það fram að það vantaði náttúrulega einn besta leikmann liðsins í leiknum,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, sérfræðingur í Messunni í gær, um Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Liverpool, eftir 1-3 tap gegn Manchester United um helgina.

Hjörvar Hafliðason fékk þá Arnar Gunnlaugsson og Þorvald sér til aðstoðar í Messunni í gær en þar var 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar gerð upp.

„Það voru aftur fullt af leikmönnum sem komu inn hjá Liverpool í sumar en hann hefur þurft að selja á hverju ári bestu leikmenn liðsins,“ sagði Þorvaldur en Liverpool hefur undanfarin tvö ár selt Suarez og Sterling.

Þorvaldur talaði um að Rodgers væri í erfiðri stöðu.

„Hann þarf að vera í topp tveimur sem er erfitt fyrir hann, sérstaklega þegar þú skiptir út jafn mörgum leikmönnum á hverju ári,“ sagði Þorvaldur en Arnar tók undir það.

„Þeir verða að átta sig á að þeir eru ekki að fara í efstu fjögur sætin með þennan mannskap. Til þess þarftu 20 frábæra leikmenn en ekki bara byrjunarliðið eins og þeir eru með.“

Arnar sagði að það væri alltaf einhver rómantík við Liverpool sem gæti leitt til þess að menn á borð við Jurgën Klopp gætu haft áhuga á að taka við félaginu.

„Liverpool getur fengið nánast hvern sem er. Það er alltaf einhver rómantík við þetta félag og fyrir stjóra sem eru eldri en tveggja vetra gæti þetta verið skemmtilegt verkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×